Ekkert bendir til þess að nafnlausar auglýsingar sem beindust gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum og voru áberandi á samfélagsmiðlum fyrir alþingiskosningar haustin 2016 og 2017 hafi verið ólöglegar miðað við núgildandi lög. Því er vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast nánar fyrir um hverjir stóðu á bak við þær. Þetta kemur fram í skýrslu forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum sem lögð var fram á Alþingi í dag.
„Þær rannsóknarheimildir sem helst kæmu til greina væru í höndum lögreglu en þá yrði að vera uppi grunur eða kæra um refsivert brot,“ segir í skýrslunni. Bent er á að samkvæmt fjölmiðlalögum getur fjölmiðlanefnd kært brot á lögunum til lögreglu.
„Alvarlegustu brotin í þessu sambandi, sem mögulega gætu tengst nafnlausum kosningaáróðri, væru brot á 27. gr. fjölmiðlalaga um bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 52. gr. laganna að fjölmiðlanefnd geti „að undangenginni lögmæltri málsmeðferð samkvæmt fjölmiðlalögum bannað, með ákvörðun, miðlun efnis sem telst andstætt ákvæðum laga.“

Í skýrslubeiðni þingmanna til forsætisráðherra var farið fram á að fjallað yrði um hvort stjórnmálaflokkar, sem buðu fram í kosningum til Alþingis 2016, hafi gert grein fyrir framlögum til kosningabaráttu sinnar í formi auglýsingaherferða á vef- og samfélagsmiðlum sem kostaðar voru af þriðja aðila, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006. Um þetta segir í skýrslunni: „Ekkert liggur fyrir um það hverjir stóðu á bak við umræddar herferðir og slíkar upplýsingar er ekki hægt að lesa til dæmis úr þeim gögnum sem Ríkisendurskoðun birtir á vef sínum. Eftirlit Ríkisendurskoðunar beinist að fjármálum stjórnmálasamtaka og ekkert liggur fyrir um hvort stjórnmálasamtök sem lúta því eftirliti hafi staðið á bak við umræddar herferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks framlags bæri að geta í reikningum stjórnmálasamtakanna eða einstakra frambjóðenda.“

Fram kemur í niðurlagi skýrslunnar að grípa þurfi til aðgerða til að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif á kosningar þar sem stjórnmálasamtök, aðilar tengdir þeim eða aðilar sem draga taum tiltekinna stjórnmálaafla geti „beitt sér með óprúttnum hætti án þess að kjósendur geti áttað sig á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunna að búa að baki“.

Gæta þurfi að því að reglur sem tryggja eiga gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi virki eins og til sé ætlast.
„Sama kann að eiga við um herferðir í þágu tiltekinna málefna án þess að þær tengist tilteknum stjórnmálasamtökum. Þá væri æskilegt að í gildi væru reglur um pólitískar auglýsingar, ekki síst í aðdraganda kosninga, og óháð miðlunarformi.“
Fram kemur að engar vísbendingar séu um aðkomu erlendra aðila að kosningabaráttu hér á landi líkt og mörg önnur ríki hafa staðið frammi fyrir. „Fyllsta ástæða er þó til að vera á varðbergi. Fylgjast þarf vel með umræðu í öðrum Evrópuríkjum um aðgerðir til að draga úr umfangi og áhrifum rangra og villandi upplýsinga og eftir atvikum fara í sams konar leiðir hér á landi og þar er verið að ræða.“
Athugasemdir