Tap upp á rúmlega 10 milljónir króna var á starfsemi hvalveiðihluta Hvals hf. í fyrra. Kostnaður við hvalveiðiþátt starfseminnar nam tæplega 875 milljónum króna á meðan Hvalur hf. seldi hvalkjöt fyrir 863 milljónir króna. Hvalur hf. stundaði engar hvalveiðar í fyrra en seldi hluta þess kjöts sem fyrirtækið á til Japans. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki stundað neinar veiðar á langreyðum í fyrra nam kostnaðurinn við að viðhalda starfseminni og möguleikanum á áframhaldandi hvalveiðum hærri upphæð en sala á hvalkjöti. Þarf af nam rekstur hvalveiðiskipa, útflutningstengdur kostnaður og ýmis kostnaður í Hvalfirði rúmlega 638 milljónum króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Hvals hf. sem nýlega var skilað til Ríkisskattstjóra eftir að reikningurinn var samþykktur á aðalfundi félagsins þann 8. maí. Kristján Loftsson er stærsti hluthafi Hvals hf. og framkvæmdastjóri félagsins sem mun hefja hvalveiðar að nýju við Ísland á næstu dögum. Hvalveiðunum var mótmælt við Reykjavíkurhöfn í gær, sunnudag, en til stóð að veiðar hæfust að nýju þá eftir þriggja ára hlé.
Athugasemdir