Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirbýr átak í friðlýsingum á náttúruverndarsvæðum. Hann kynnti áformin í dag fyrir ríkisstjórninni.
Ríkisstjórnin hefur ráðstafað 36 milljónum króna til átaksins árlega næstu tvö árin, og svo 12 milljónum króna á ári til undirbúnings stofnunar miðhálendisþjóðgarðs.
Guðmundur Ingi er fyrrverandi framkvæmdastjóri náttúruverndarsamtakanna Landverndar og vakti því nokkra athygli þegar hann var gerður umhverfisráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Haft er eftir honum í fréttatilkynningu ráðuneytisins að leitað verði eftir samstarfi við landeigendur um náttúruvernd og efnahagsleg áhrif hennar greind.
„Við viljum til dæmis skoða þau tækifæri sem felast í efnahagslegu mikilvægi náttúruverndarsvæða“
„Við nálgumst náttúruverndina á nýjan hátt og meira út frá sjálfbærri þróun. Við viljum til dæmis skoða þau tækifæri sem felast í efnahagslegu mikilvægi náttúruverndarsvæða og aukinni samvinnu við landeigendur. Friðlýst svæði geta haft mikil efnahagsleg áhrif og mikilvægt er að þekkja þau,“ segir Guðmundur Ingi.
Í tilkynningu ráðuneytisins er fjallað um að friðlýsing geti skapað fjárhagsleg og samfélagsleg tækifæri fyrir byggðir landsins:
„Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eru í undirbúningi verkefni með ýmsum samstarfsaðilum til að styðja betur við framgang friðunar og friðlýsinga, svo sem með því að meta forsendur fyrir samstarfi við bændur og aðra landeigendur um náttúruvernd, enda mörg svæði sem skipta miklu fyrir náttúruvernd í landinu í einkaeigu. Hagræn áhrif friðlýstra svæða verða einnig metin og framundan er skipulögð mæling á slíkum áhrifum á ellefu náttúruverndarsvæðum hér á landi ... Friðlýsing svæða getur falið í sér ýmis tækifæri fyrir dreifðar byggðir. Friðlýsingar og friðanir geta verið mismunandi og með ólíkum áherslum eftir aðstæðum og tækifærum á hverju svæði, svo sem fjárhagslegum og samfélagslegum tækifærum í jaðarbyggðum. Umhverfisráðuneytið hyggst láta vinna sviðsmyndagreiningu fyrir nokkur tiltekin svæði sem hafa verið til umfjöllunar vegna náttúruverndar, þar með talið stór víðernissvæði.“
Athugasemdir