Velferðarráðuneytið lét undir höfuð leggjast að afla gagna um samskipti Braga Guðbrandssonar við barnaverndarstarfsmann og föður málsaðila í Hafnarfjarðarmálinu þrátt fyrir að skjöl, sem ráðuneytið fékk afhent annars vegar 16. nóvember 2016 og hins vegar 31. janúar 2017, gæfu fullt tilefni til frekari skoðunar.
Um er að ræða sömu skjöl og Stundin fjallaði um í ítarlegri frétt um afskipti Braga Guðbrandssonar af umræddu barnaverndarmáli þann 27. apríl síðastliðinn, en samkvæmt þeim skráðu samskiptum sem liggja fyrir þrýsti Bragi á barnaverndarstarfsmann, í samráði við föðurafa tveggja stúlkna, um að koma í kring umgengni stúlknanna við föður þeirra þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um að hann hefði brotið kynferðislega gegn þeim.
„Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það,“ sagði Bragi þegar Stundin fjallaði um málið þann 27. apríl.
„Ráðuneytinu hefði verið í lófa lagið að óska eftir gögnum frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar eða Barnaverndarstofu á grundvelli 4. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga en gerði það ekki,“ segir í úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents um málsmeðferð velferðarráðuneytisins á kvörtunum barnaverndarnefnda undan vinnubrögðum Barnaverndarstofu og forstjóra hennar.
Málsatvik ekki nægilega upplýst til að snupra mætti Braga
Í úttektinni er ekki tekin efnisleg afstaða til vinnubragða Braga að öðru leyti en því að bent er á að á grunni fyrirliggjandi gagna hafi ekki verið hægt að slá því föstu að Bragi hefði farið út fyrir verksvið sitt með afskiptunum eða brotið gegn þagnarskyldu í samskiptum sínum við föður málsaðila. Ráðuneytið hafi ekki ekki upplýst málsatvik nægilega vel til að geta lagt dóm á embættisfærslur Braga og hvorki virt rannsóknarregluna né andmælaregluna við meðferð málsins.
„Ráðuneytið fékk gögn afhent frá aðstoðarmanni annars málsaðilans sem var ósáttur við aðkomu forstjórans að málinu. Það atriði hefði eitt og sér átt að gefa ráðuneytinu tilefni til að kanna frekar efni gagnanna og þá afla frekari gagna og skýringa hjá forstjóranum,“ segir í úttektinni. „Slíkt var hins vegar ekki gert, þrátt fyrir að ekki verði annað séð en að ráðuneytið hafi byggt aðfinnslur sínar við það að forstjórinn hafi greint föðurafa barna frá samskiptum barnaverndarnefndar við móður barnanna alfarið á þessum sömu gögnum, þá einkum og sér í lagi tölvupósti forstjóra Barnaverndarstofu til föðurafans, dags. 4. janúar 2017.“
Dagállinn sem Stundin birti var eina
samtímagagnið um afskipti Braga
Fram kemur að ef forstjóra Barnaverndarstofu hefði verið gefinn kostur á að tjá sig um málið hefði hann getað lagt fram frekari gögn til að varpa ljósi á það. Eina gagnið sem lýsir því í hverju afskipti forstjórans af málinu fólust sé dagáll barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar frá 4. janúar 2017.
Áður hefur Stundin birt dagálinn í heild, með persónugreinanlegum og viðkvæmum upplýsingum afmáðum. Birtir úttektarnefndin sama gagn í niðurstöðu sinni og staðfestir að því leyti fréttaflutning Stundarinnar.
„Fyrir liggur að forstjóri Barnaverndarstofu fékk ekki færi á að tjá sig um ofangreindan dagál áður en ráðuneytið gerði athugasemdir við störf hans. Verður að telja að með því að leggja þær upplýsingar sem þar greinir til grundvallar niðurstöðu, án þess að gefa forstjóranum tækifæri á að tjá sig um þær, hafi ráðuneytið hvorki gætt að rannsóknarskyldu sinni né andmælarétti forstjórans,“ segir í úttektinni.
Hér að neðan má sjá dagál barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar sem úttektarnefndin birtir í heild auk tölvupóstssamskipta föðurafans við Braga, með viðkvæmum upplýsingum afmáðum.
„(föðurafi [...]) hefur verið í sambandi við Braga vegna málsins. Bragi var búinn að fá upplýsingar frá Barnahúsi um fyrri vinnslu þar. Bragi hélt í upphafi símtals að stúlkurnar hefðu einnig farið í skýrslutöku/könnunarviðtal í Barnahúsi 2012 en það var ekki rétt þar þá voru þær [...] og var það leiðrétt.
Bragi spurði um efni tilkynningarinnar og spyr hvort að ástæða hafi verið að kanna málið að nýju og senda stúlkurnar aftur í Barnahús. Lesið var upp úr tilkynningunni fyrir Braga, sem barst frá listmeðferðarfræðingi og að það hafi verið mat starfsmanna að upplýsingarnar sem þar kæmu fram væru þess eðlis að nauðsynlegt væri að vísa þeim aftur í Barnahús. Bragi spyr hvort að regluleg umgengni hafi verið og upplýsir [X] hann um að skv. þeim upplýsingum sem [X] hefur hófst umgengni á ný í vor eða sumar og var búin að vera um einhvern tíma. B og C (móður og móðuramma) hafa upplýst undirritaða um að föðuramma og afi hafi verið beðin um að bera ábyrgð á stúlkunum í umgengni. Föðuramma sagði einnig frá því í símtali að en sagði þá einnig að D (faðir stúlknanna) hafi stundum verið hjá dætrum sínum í stutta stund einn. Bragi bendir á að honum finnst ótrúlegt að ef maðurinn sé raunverulega með pedófílu að hann brjóti á dætrum sínum strax og hann fái að hitta þær. [X] segist ekki þekkja það en bendir á að umgengni hafi verið um nokkurn tíma. [X] bendir einnig á að fyrsta tilkynning sem barst hafi verið vegna netnotkunar föður en inn á kynlífsspjallsíðu hafði hann hakað við það sem hann hafði áhuga á og var það m.a. áhugi á kynlífi með börnum sínum og fantasíur um að vakna með [...] (barni sínu) ofan á sér og stunda með henni kynlíf. Önnur tilkynning hafi síðan borist frá lækni eftir læknisskoðun og nú sú þriðja frá listmeðferðarfræðingi stúlknanna.
Bragi bendir á að Barnahús hafi ekki fengið tilvísun vegna málsins. [X] var búinn að kanna það og var tilvísun gerð 6. des. og send þann 7. des og skv. upplýsingum frá póstinum er ekki búið að sækja hana í pósthólf Barnahúss.
Bragi kemur ítrekað inn á það að það sé slæmt að móðir sé að hamla umgengni og að barnavernd þurfi að fara varlega í þeim efnum. [X] bendir á að samkvæmt leiðbeiningum frá Heiðu, lögfr. Barnaverndarstofu, hafi [X] bent móður og lögfræðingi hennar að fara til sýslumann og óska eftir tímabundinni breytingu á umgengni á meðan málið væri til könnunar hjá barnavernd. Það hafi verið alveg skýrt að barnavernd hafi ekki verið að hafa bein afskipti af umgengninni, fyrir utan að hafa verið tilbúin að útvega eftirlitsaðila svo að umgengni gæti farið fram um jólin og þannig komið á móts við óskir föðurömmu og afa. Það hafi verið í höndum lögfræðinga foreldra að semja um fyrirkomulag umgengninnar fyrir hönd sinna skjólstæðinga og barnavernd hafi ekki skipt sér af því.
Bragi óskar eftir því að [X] reyni að tala um fyrir móður svo að föðuramma geti fengið að hitta stúlkurnar áður en hún falli frá, en hún sé mjög veik á sjúkrahúsi og eigi jafnvel stutt eftir. Bragi segir að einnig sé vert að benda á að ef hún virkilega óttist um stúlkurnar í umsjá föður þá ætti hún ekki að vera með tálmun og Bragi sagðist telja að um tálmun sé að ræða. Hann sagði að föðurafi stúlknanna hafi sagt að ef þetta haldi áfram muni faðir fara í forræðisdeilu og ef hún sé að tálma gæti hann fengið forræði. [X] bendir á að föðurforeldrum standi alltaf til boða að hitta [börnin] á heimili [þeirra] og segist Bragi vita það en að þá finnist þeim þau vera að svíkja son sinn sem þau trúa staðfastlega að sé saklaus.
Rætt var stuttlega um atburðarásina þegar gerð var tilraun til umgengni um jólin. Bragi bendir á að þar sem eftirlit hafi verið hafi móðir átt að standa við umgengnina. [X] tekur ekki afstöðu til þess þar sem allar ákvarðanir varðandi umgengnina hafi verið teknar af lögfræðingum foreldra og eina aðkoma barnaverndar hafi verið að útvega stað og eftirlitsaðila til að umgengnin gæti gæti farið fram. Föðuramma og afi voru ekki tilbúin til að hitta stúlkurnar án föður og móðir ekki tilbúin að leyfa umgengni þegar faðir væri viðstaddur. Afstaða móður hafi legið fyrir skv. tölvupóstum á milli lögfræðinga aðila. [X] benti á að vegna veikinda föðurömmu getur það skipt máli að [börnin] fái að hitta ömmu sína sem fyrst en það er ekki sama tímaspursmál fyrir stúlkurnar að hitta föður sinn. Vonandi ná foreldrar samkomulagi í gegnum lögfræðinga. [X] samþykkir að benda móður á það að það sé mikilvægt fyrir stúlkurnar að hitta ömmu sína, áður en hún fellur frá. Bragi segir að barnaverndin verði að passa að hafa ekki skoðun og tekur [X] [undir það] og ítrekar að móður hafi verið leiðbeint að fara til sýslumanns og óska eftir tímabundinni breytingu þar. Bragi segist telja að hún hafi ekki gert það og sé því að tálma umgengni. [Föðurafi] hafi sagt að sýslumaður kannist ekki við málið. [X] segist ekki vita hvort móðir hafi farið eða ekki, en henni og lögmanni hennar hafi verið leiðbeint um að gera það en [X] hafi ekki fylgt því eftir frekar.“
Athugasemdir