Samkvæmt lögum um opinber fjármál ber ráðherrum að skila ársskýrslu um síðasta fjárhagsár eigi síðar en 1. júní. Við þetta hefur ekki verið staðið þrátt fyrir fyrirheit um annað. Í fyrra áttu ráðherrar fyrst að skila ársskýrslu en á lokaskiladegi, þann 1. júní í fyrra var lögunum breytt og ákveðið að ráðherrar skiluðu fyrst ársskýrslu í ár.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Björns Leví Gunnarsson, þingmanns Pírata, um upplýsingagjöf ríkisstjórnarinnar til almennings á þann veg að ráðherrar ríkisstjórnarinnar myndu, hver fyrir sig, í fyrsta sinn í ár, gefa út ársskýrslu. Þar yrði gert grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka sem undir ráðherrana heyra og hún borin saman við fjárheimildir fjárlaga.
Tilgangur með gerð ársskýrslu hvers ráðherra er að fyrir liggi heildstæð samantekt með þróun útgjalda og mat á árangri fyrir hvert málefndasvið og málaflokk til lengri tíma litins. Þá á ársskýrslan að vera innlegg í stefnumörkun ráðherra sem unnin er í tengslum við gerð fjármálaáætlunar hverju sinni.
Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum um opinber fjármál kemur fram að hver ráðherra beri ábyrgð á gerð ársskýrslu fyrir sitt ráðuneyti.
Athugasemdir