Það er ekki nóg að eldri borgarar séu í launabaráttu við stjórnvöld, heldur eru líka sífeldir árekstrar við Tryggingastofnun ríkisins þar sem sú stofnun virðist stunda ítarlegar endurreikningatilraunir til að vera fullviss um að ekki sé krónu ofaukið í ellilífeyri. Ég nota hér fleirtölu þó að tilfellið sem ég mun skrifa hér um sé mitt, er það vegna þess að þeir sem ég hef talað við hafa allir sömu reynslu af þessari stofnum. Í mínu tilfelli þá er ég hætt að vinna og síðasta skattframtal hafði ekki annað fram að færa en ellilífeyris- og lífeyrissjóðsbætur og þannig hljóðaði mín tekjuáætlun til þeirra sem við eldriborgara verðum að færa TR og að mínu áliti er niðurlægjandi.
Ég fékk bréf frá Ríkisskattstjóra þar sem segir: „Tilkynning um breytingu á skattframtali 2018. Ríkisskattstjóri hefur fengið upplýsingar um niðurstöðu endurreiknaðra greiðslna fyrir árið 2017 frá Tryggingastofnun ríkisins og leiðréttist skattframtal og staðgreiðsla skatta til samræmis við niðurstöðuna. Niðurstaða liggur nú fyrir og eftirfarandi breytingar hafa nú verið gerðar á framtali 2018 vegna greiðslna á árinu 2017.
Skattskyldar greiðslur í reit 40: Fyrir breytingu: 1.983.178 eftir breytingu 2.238.846. Hækkun 255.668“.
Ef Tryggingastofnun misreiknaði sig og greiddi mér of mikið, sem ég á bágt með að trúa, síðasta greiðsla frá þeim var 1 júní 2018: 177.000 og árið 2017 greiddu þeir inná minn reikning alls 1.421.267 eða minna en 130.000 á mánuði. Því á ég að verða fyrir tjóni en ekki þeir? Er þetta ekki þeirra mistök?
„Ég bið góðan guð um að veita mér stóran peningavinning í lottóinu svo ég þurfi ekki að vera upp á þessa aumu stofnum komin.“
Þessi árslaun mín að við bættum lífeyrissjóði 640.613 og fjármagnstekjum 33.324 nær ekki einu sinni uppí mánaðarlaun forsætisráðherra, þeirrar sömu og ég hjálpaði við að koma í embætti af minni barnslegu trú á heiðarleika og efnda gefinna loforða. En samt finnur Ríkisskattstjóri og Tryggingastofnun hvöt hjá sér að reyna að kreista út úr minni buddu fáeinum krónum meira, það er að segja fáeinum krónum í þeirra augum en miklum peningum í mínum. Við sem erum komin á efri árin vorum einu sinni með brennandi vilja og áhuga að berjast fyrir réttlæti okkar, en eftir langa ævi í baráttunni kemur þreyta og vonleysi og enginn vilji til að halda því áfram. Ég bið góðan guð um að veita mér stóran peningavinning í lottóinu svo ég þurfi ekki að vera uppá þessa aumu stofnum komin. Stofnun og stjórnvöld sem auðmýkja og niðurlægja þá sem á undan þeim gengu og ruddu veginn fyrir þau sem fá nú aldrei nóg og ekki vilja vita af annarri kynslóð en þeirri sem baðað getur sig ljúfu lífi á kostnað þeirra sem greiða háa skatta af lúsar launum, skatta sem þeir sem stjórna skaffa sér og sínum til framkvæmda fyrir þá sem vilja efla þá ríku frekar en styrkja þá sem fátækir eru.
Ég vil hrósa Ingu Sæland er hún sagði í kosningasjónvarpi sveitarfélagana að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi brotið öll loforð sem hún gaf fyrir kosningar, um betri kjör fyrir fátæka, öryrkja og eldri borgara. Mér fannst aumt svar forsætisráðherra er hún reyndi að segja að þetta væri ekki rétt og að hún hefði bætt kjör öryrkja (pínulítið lét hún ekki fylgja). En ég var hissa á að hún skildi ekki endurtaka þá vitleysu sem félagi hennar Bjarni Ben. sagði um 300.000 krónur sem nú væri ellilaun eldriborgara og enginn kannast við að fá. Skyldi vera að hún hafi vitað að það var ekki sannleikur?
„Ég hef búið í löndum þar sem mikil virðing er borin fyrir eldra fólki“
Ég hef búið í löndum þar sem mikil virðing er borin fyrir eldra fólki og það hefur opnað augu mín fyrir því hve mikið skortir á þann góða sið hjá okkur íslendingum í dag. Ég segi í dag, því ég var alin uppvið það að virða mér eldra fólk og ég miðlaði því til minna barna sem finnst sjálfsagt að sjá um sína. En einhvers staðar brotnaði löm í okkar samfélagi því miður ekki bara hjá stjórnvöldum, því yngri kynslóðin ætti að bera meiri virðingu fyrir eldra fólki og hjálpa okkur til taka virkan þátt í baráttunni til að breyta okkar samfélagi; já, til þess að hjálpa okkur þreyttum eldri borgurum til endurheimta virðingu, sækja rétt okkar til fyrir betri kjörum. Svo gamlir, veikir og fátækir geti líka tekið þátt í þjóðfélaginu með reisn.
Athugasemdir