Úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents beinist sérstaklega að stjórnsýslu velferðarráðuneytisins við meðferð þess á kvörtunum barnaverndarnefnda vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar.
Utanríkisráðuneyti Norðurlandanna bíða eftir niðurstöðum úttektarinnar vegna framboðs Braga Guðbrandssonar til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Tilkynnt var um gerð úttektarinnar eftir að Stundin fjallaði með ítarlegum hætti um afskipti Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmáli í Hafnarfirði og félagsmálaráðherra viðurkenndi að velferðarráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu að Bragi hefði þar farið út fyrir starfssvið sitt
Af verksamningi ráðuneytisins við úttektaraðila má þó ráða að úttektin beinist ekki sérstaklega að vinnubrögðum og embættisfærslum Braga heldur einkum að málsmeðferð ráðuneytisins í kjölfar kvartana þriggja barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu.
„Verktakar taka að sér að gera úttekt á málsmeðferð og efnislegri athugun ráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar,“ segir í samningnum sem Stundin fékk afhentan á grundvelli upplýsingalaga.
Í upphaflegri tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins kom þó fram að úttektaraðilum yrði falið að skoða fyrirliggjandi gögn og „málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis“.
Eins og Stundin hefur áður greint frá var hvorki Alþingi né stjórnvöldum nágrannaríkjannna greint frá því, áður en ríkisstjórn Íslands bauð Braga fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, að velferðarráðuneytið hefði skömmu áður sent Braga tilmæli vegna óeðlilegra afskipta hans af barnaverndarmáli þar sem Bragi beitti sér fyrir því að faðir fengi að umgangast dætur sínar þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um að hann hefði misnotað þær kynferðislega.
Utanríkisráðuneyti Danmerkur, Noregs, Finnlands og Svíþjóðar hafa greint Stundinni frá því að þau bíði eftir frekari upplýsingum um framgang athugunarinnar og embættisfærslur Braga Guðbrandssonar.
„Við höfum átt í samskiptum við íslensk stjórnvöld og okkur er kunnugt um að þau hafi tekið málið til skoðunar,“ sagði upplýsingafulltrúi danska utanríkisráðuneytisins í tölvupósti til Stundarinnar um miðjan maí. „Ef nýjar upplýsingar um frambjóðandann koma fram eftir formlegum leiðum, þá tökum við málið til endurskoðunar,“ sagði í svari frá norska utanríkisráðuneytinu. „Við höldum áfram að styðja frambjóðandann nema niðurstöður athugunarinnar gefi tilefni til annars,“ sögðu Finnar.
Samkvæmt verksamningi velferðarráðuneytisins við Kjartan Bjarna Björgvinsson og Kristínu Benediktsdóttur eru verklok áætluð 5. júní. Fram kemur í verksamningnum að verktakar skuli hafa „fullt sjálfstæði við framkvæmd verksins og ekki lúta neinum fyrirmælum verkkaupa þar um“. Að þessu leyti er um „óháða úttekt“ að ræða þótt velferðarráðuneytið annist verksamningsgerð og ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar dekki kostnaðinn. Eins og Stundin greindi frá í byrjun mánaðar gerði velferðarráðuneytið nýlega samning við sérfræðinga í fyrirtækjarekstri, viðskiptaþróun og stefnumótun hjá fyrirtækinu Expectus um að verkstýra endurskoðun barnaverndarkerfisins fyrir um 25 þúsund krónur á tímann. Í verksamningnum við Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara og Kristínu Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, er hins vegar kveðið á um 16.500 króna tímakaup að viðbættu 20 prósenta álagi.
Stundin spurði hvort ráðuneytið hefði útvegað Kjartani Bjarna og Kristínu starfsmenn. „Við samningsgerð ráðuneytisins við Kjartan Bjarna og Kristínu var litið svo á að þar sem þau væru verktakar með fullt sjálfstæði um hvernig þau höguðu framkvæmd verksins myndu þau geta ráðið undirverktaka til að aðstoða sig við ýmsa þætti vinnunnar að því marki sem þau teldu það nauðsynlegt,“ segir í svari frá upplýsingafulltrúa.
Athugasemdir