Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, situr enn í stjórnum fimm eignarhaldsfélaga, þrátt fyrir að hafa sagst ætla að víkja úr stjórnum fyrirtækja. Tvö félaganna halda utan um fjárfestingar Eyþórs og eru eignir þeirra samtals um einn og hálfur milljarður króna, samkvæmt ársreikningum 2016. Eitt félaganna er Special Tours ehf., sem rekur starfsemi í ferðamennsku við gömlu höfnina í Reykjavík.
Eyþór var kjörinn í borgarstjórn í kosningunum 26. maí og hlaut Sjálfstæðisflokkurinn flest atkvæði, tæp 31%, og 8 fulltrúa. Þegar leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins fór fram 27. janúar var hann stjórnarmaður í 26 eignarhaldsfélögum og fyrirtækjum. Hann hefur verið umsvifamikill í viðskiptalífinu undanfarin ár og því með töluverða fjárhagslega hagsmuni tengda þessum félögum. Í samtali við Stundina 14. janúar síðastliðinn, áður en prófkjörið fór fram, sagðist Eyþór ætla að skrá sig úr viðkomandi stjórnum, og eða selja fyrirtæki sín, að loknu prófkjöri.
Athugasemdir