Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur að umræðan um Borgarlínu sé á villigötum og furðar sig á að málið hafi verið gert að sérstöku kosningamáli í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum.
„Um þetta mál er það að segja að það er afskaplega skammt á veg komið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Bjarni þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gerði fjármögnun Borgarlínu að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.
Að sögn Bjarna hefur ríkisstjórnin tekið vel í ósk sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að eiga samtal við ríkið um Borgarlínu. „En ef menn vilja kafa dýpra og spyrja sig hvort að það sé að finna í fjármálaáætluninni nú þegar fulla fjármögnun á þeim hluta sem nefndur hefur verið að falli í skaut ríkisins, þá er það nokkuð auðlesið út úr áætluninni að svo er ekki. Það breytir því ekki að ég geri ráð fyrir því að þetta samtal verði formgert og verði að verulegu leyti á hendi samgönguráðherrans að fylgja því eftir,“ sagði hann.
„En mér finnst, og ég hef lýst því yfir áður, að umræðan um Borgarlínuna hafi í raun og veru farið langt fram úr öllu eðlilegu samhengi málsins. Það er einfaldlega statt þannig að menn hafa bent hér á leið sem menn segja að kosti 70 milljarða króna, 70 milljarða. Við erum að tala um fjárhæð sem hefur staðið í okkur í heilan áratug að skrapa saman til þess að endurreisa Landspítalann. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Það er þess vegna dálítið einkennilegt að menn telji sig geta gengið til kosninga og kosið beinlínis um það þegar hvorugur aðilinn hefur sýnt fram á að hann hafi úr því að spila sem þarf til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.“
Málflutningur Bjarna er í takt við orð sem hann lét falla í kosningasjónvarpinu um helgina, en þá tók hann fram að hvorki ríki né sveitarfélög hefðu gert ráð fyrir fjármagni til Borgarlínu í áætlunum sínum.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur þó skýrt fram að „stutt verð[i] við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Minnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sérstaklega á þetta í kosningasjónvarpinu og aftur í fyrirspurnatímanum á Alþingi í dag.
Athugasemdir