Áðan flugu tvær þyrlur suðureftir.
Þetta voru stórar svartar herþyrlur og þótt þær flygju of hátt til að hægt væri að greina smáatriði er ég viss um að þær voru þrælvopnaðar vélbyssum og öðrum drápstólum.
Þær flugu yfir ströndinni og það var enginn vafi á á hvaða leið þær voru.
Ég var að ganga meðfram Miðjarðarhafinu í Tel Aviv og eiginlega alveg kominn að gömlu arabísku borginni Jaffa. Tel Aviv, sem var stofnuð af Gyðingum upp úr 1920, hefur nú vaxið umhverfis Jaffa.
Og ég vissi vel hvað var í suðri þangað sem þyrlurnar stefndu.
Gaza.
Hið svokallaða sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna.
En er lítið annað en risastórt fangelsi.
Maður getur haft hvaða skoðun sem maður vill á tilverurétti Ísraels eða framferði leiðtoga Palestínumanna gegnum tíðina en það er ekki hægt annað en gagnrýna hvernig Ísraelsmenn - það mikla herveldi - hafa sífellt hert kverkatak sitt á Gaza-svæðinu og íbúum þess.
Tveim dögum áður en ég var þarna á ferð höfðu ísraelskir hermenn drepið tugi Palestínumanna sem mótmæltu á mörkum Gaza og Ísraels.
Þeir voru einfaldlega skotnir á færi.
Ögranir, segja Ísraelsmenn. Mótmælendurnir hlýddu ekki fyrirmælum hermannanna og létu dólgslega. Og svo frasinn lúni: Ísrael hefur rétt á að verja sig.
Hann nota þeir alltaf þegar þeir ráðast á einhvern.
Æjá.
Ég hafði komið til Tel Aviv daginn áður og gengið heilmikið um borgina og suðrí Jaffa.
Mér fannst undarlegt að engin spenna virtist í loftinu.
Ekki gat ég skynjað það alla vega.
Það var eins og ekkert væri á seyði.
Arabískir íbúar röltu um götur eins og aðrir og virtust hvorki vænta sér nokkurs meins né sýna Ísraelsmönnum neinn fjandskap.
Nú veit ég að vísu að auðvitað er ekkert að marka hvað tilfallandi túristar telja sig skynja þegar þeir drepa niður fæti í ókunnu landi.
Ég veit það meira að segja manna best.
Einu sinni var ég í Sýrlandi og fann ekki annað en andrúmsloftið væri gott, fólkið á götunum áhyggjulaust og tiltölulega ánægt.
Níu mánuðum síðar braust þar úr hið grimmilega borgarastríð sem enn stendur.
Svo ég veit að manni ber að varast að byggja of mikið á skyndikynnum af löndum og þjóðum.
En samt, samt fannst mér ástandið í Tel Aviv furðulega afslappað.
Þar sáust varla lögreglumenn á ferli. Einn eða tvo herflokka sá ég en þeir létu lítið fyrir sér fara og virtust alveg áhyggjulausir.
En svo þessar grimmdarlegu þyrlur.
Á leiðinni til Gaza.
Frá mótum Tel Aviv og Jaffa og til Gaza eru 57 kílómetrar.
Er það ekki svipuð vegalengd og frá Reykjavík austur á Selfoss?
Hér virtist sem sagt allt svo áhyggjulaust; á Gaza var venjulegt fólk að syrgja dána ástvini.
Brátt myndi það fólk heyra þungan dyn frá þyrlunum yfir höfðum sér.
Við fórum inn í veitingahverfið í Jaffa og settumst inn á arabískan veitingastað.
Borðuðum þar dæmalaust góðan shakshouka.
Þjónarnir voru brosmildir og kátir.
Við borð úti í horni var flokkur 6-7 hermanna að fá sér kvöldverð.
Þeir voru með alvæpni, vélbyssur og allt.
Höfðu þær á öxlunum meðan þeir borðuðu.
En virtust þó alveg áhyggjulausir með öllu.
Og voru afar kurteisir við þjónana sem þeir þekktu greinilega sumir.
Þegar þeir fóru borgaði hver fyrir sig og svo kvöddu þeir þjónana með virktum.
Og voru báðir aðilar hinir vingjarnlegustu.
Einn þjónninn og einn hermannanna gerðu hæ fæv.
Svo röltu þeir út.
Með byssurnar sínar.
Hvað átti þetta að þýða?
Fundu þjónarnir, þótt arabískir væru, ekki til neinnar samkenndar með hinum föllnu í Gaza? Voru einhverjir hermannanna kannski arabískir? Arabískum borgurum í Ísrael fer víst fjölgandi í hernum. Eða vissu þjónarnir að framferði hermannanna á landamerkjunum kringum Gaza væri „ekkert persónulegt“? Voru þetta ef til vill gamlir vinir, skólabræður kannski, sem höfðu lært að láta ekki hörmungarnar í landinu skyggja á kynni sín? Vildu þjónarnir á veitingahúsinu kannski bara ekki lenda í vandræðum og sýndu því hermönnunum vinahót?
Ég hef ekki minnstu hugmynd.
Kannski er þetta eina ráðið til að bregðast við ástandi eins og þarna er. Reyna að vingast við annað fólk, þótt það eigi að heita óvinir.
Eða - ég veit það ekki.
Ég hef lært að í flókinni stöðu þýðir ekki alltaf að treysta á það sem maður sér eða telur sig sjá.
En þeir gerðu alla vega hæ fæv, það var alveg ljóst, Arabinn og ísraelski hermaðurinn.
Athugasemdir