Mörgum verður tíðrætt um það að Borgarlína sé of dýr framkvæmd. Verðmiðinn er vissulega hár. En þá gleymist að nefna hvað það kostar að sleppa Borgarlínu og halda áfram í sama farinu. Ef við förum ekki í það að bæta almenningssamgöngur og breyta ferðavenjum þurfum við að setja meira en 100 milljarða í gatnakerfið til þess að koma í veg fyrir að tafatíminn í umferðinni aukist. Síðustu 30 ár voru meira en 80 milljarðar settir í að byggja upp stofnvegakerfið, engu að síður er staðan í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu óásættanleg. Loftmengun hefur aukist gríðarlega og slysakostnaður í Reykjavík kostar samfélagið 14,7 milljarða á ári.
„Loftmengun hefur aukist gríðarlega og slysakostnaður í Reykjavík kostar samfélagið 14,7 milljarða á ári.“
Þetta er stóra staðreyndin sem hefur vantað í málflutninginn hjá þeim sem eru á móti. Við erum að tala um hvernig þróun samgangna muni vera og það er alltaf val á milli mismunandi leiða. Þau sem setja sig á móti Borgarlínu hafa ekkert rætt þetta, og raunar virðast þau annað hvort ekki hafa neina aðra möguleika fram að færa eða þegar best lætur er kannski talað almennt um að bæta samgöngur, fjölga ferðum strætó og bæta leiðakerfið….sem er í grunninn nákvæmlega það sem Borgarlína og breyttar ferðavenjur snúast um, nema að það er gert heildstætt og í samhengi við skipulagsáætlanir bæjarins og þéttingu byggðar sem miðast við borgarkjarna sem tengjast línunni.
Sá málflutningur að um sé að ræða ‘aðför’ að einkabílnum er sérstaklega ósanngjarn, þar sem enginn mun græða meira á því að breyta samgönguvenjum og létta umferðarálag meira en þeir sem þurfa eða kjósa að vera áfram á bíl. Það er enginn að tala um að ekki sé í lagi að vera á bíl, en í dag er það ekki kostur sem þykir boðlegur að vera án bíls. Eina raunhæfa leiðin til að takast á við umferðarþunga og langar tafir er að gera fólki mögulegt að vera ekki á bíl. Markmiðið er að íbúar í öllum hverfum borgarinnar hafi raunhæft val um vistvæna samgöngumáta, ekki að enginn sé nokkurn tíma á bíl.
Þeir sem tala fyrir því að gefa frítt í strætó eru líka á villigötum og fyrir því eru tvær ástæður. Fyrir hið fyrsta sýna rannsóknir að frítt aðgengi í strætó fjölgar vissulega farþegum, en stærstur hluti þeirrar fjölgunar er fólk sem væri annars fótgangandi eða á hjóli. Fólkið sem er á bílum er ekki að fara úr bílunum sínum þó svo farið í strætó sé frítt. En það útskýrir hin ástæðan. Sem er að ferðir strætisvagna eru of fátíðar og ferðatími of langur. Fyrir þá sem verða að treysta á að komast örugglega á réttum stað á réttum tíma vegna skóla eða vinnu er þetta ekki fýsilegur kostur nema í undantekningartilfellum.
Við verðum að gera almenningssamgöngur þannig að þær virki, örugglega, áður en við getum farið í það að búa til hvata fyrir fólk til að nota þær. Það er bara staðreynd. Það er líka eina leiðin til að vinda ofan af þeirri neikvæðu mynd sem Íslendingar hafa af Strætó, en í dag er það þannig að enginn notar það kerfi sem hefur efni á öðru. Það er einsdæmi í norrænni höfuðborg.
Þau sem tala fjálglega um að byggja upp stórar íbúabyggðir í austasta hluta borgarinnar ættu líka að íhuga hvernig þeim sem þar myndu búa sé ætlað að komast til skóla og vinnu en álagið á stofnæðar er nógu mikið eins og er. Ef við ætlum að byggja stór hverfi þar, þá verðum við að létta því álagi.
Það er oft talað um skort á langtímasýn í íslenskum stjórnmálum, enginn hugsi lengra en út næsta kjörtímabil. Borgarlína er einmitt skýrasta dæmið um þverpólitíska sátt í öllum bæjarfélögum höfuðborgarsvæðisins um að fjárfesta í skynsamlegri langtímalausn. Við ættum í raun að vera að rökræða það hvort hún gangi nógu langt og hvort komandi kynslóðir eigi ekki ekki rétt á því að við séum mun metnaðarfyllri og umhverfisvænni.
Píratar ætla sér að vinna eftir skýrum áætlunum sem eru byggðar á sérfræðiþekkingu og bestu fáanlegu gögnum um þróun borgarinnar. Við teljum að kjósendur eigi heimtingu á því. Loðin svör um að þetta kosti nú of mikið, án þess að hafa einu sinni skoðað samanburð við kostnað af því að fara aðrar leiðir eru einfaldlega ekki boðleg.
Stundum eru góð ráð dýr, en á endanum er óráð alltaf dýrara.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Alexandra Briem eru frambjóðendur í 2. og 3. sæti á lista Pírata í Reykjavík
Athugasemdir