Ímyndaðu þér að vera haldið gegn vilja þínum fjarri fjölskyldu þinni og heimili. Áður fyrr dreymdi þig kannski um að klífa Mount Everest, en nú þráirðu það heitast af öllu að geta einhvern daginn sest í þinn eigin sófa, á þínu eigin heimili, og klipið þig í handlegginn til að ganga úr skugga um að þú sért örugglega vakandi. Að þú sért loksins heima.
Mér og tveggja ára gömlum syni mínum hefur verið haldið í nokkurs konar gíslingu á Íslandi í bráðum tíu mánuði. Í ágúst 2017 var ákveðið að senda hann frá Finnlandi til Íslands vegna forræðisdeilu okkar foreldranna og síðan höfum við mæðginin búið í Kvennaathvarfinu. Það er óásættanlegt að láta fólk velkjast í slíkri óvissu mánuðum saman – í hvaða öðru Evrópulandi sem er hefði dómur þegar fallið í málinu.
Barnsfaðir minn hefur vísvitandi dregið forræðismálið á langinn. Ásamt lögmanni sínum hefur hann fundið alls konar tylliástæður til að tefja fyrir úrlausn þess og íslenskt réttarkerfi lætur hann komast upp með það. Hagsmuna barna er best gætt með því að leysa fljótt og örugglega úr málum af þessu tagi svo að barnið geti sem fyrst snúið aftur til hversdagsins, og foreldrarnir einnig. En hér erum við enn. Í millibilsástandi. Í hvert sinn sem staðið hefur til að taka málið fyrir hefur fyrirtöku seinkað um margar vikur vegna hinna og þessara ástæðna sem barnsfaðirinn hefur tínt til. Fyrir nokkrum vikum ákvað svo Landsréttur að barnið mitt, sem þá hafði aldrei verið burtu frá mér svo mikið sem eina nótt, ætti að vera þrjár nætur til skiptis hjá hvoru foreldri uns dæmt yrði í málinu. Kröfu minni um að fá að bíða úrskurðar heima hjá mér í Finnlandi var hafnað, án annars rökstuðnings en þess að það hefði verið faðirinn en ekki ég sem áfrýjaði til Landsréttar vegna málsins. Ekkert tillit var tekið til ungs aldurs barnsins míns, hagsmuna þess eða þarfa, eða þess að við þurfum að búa í Kvennaathvarfinu meðan við erum hér.
Það er hvorki jafnrétti né réttlæti í því að ég sé tilneydd að vera hér meðan forræðismálinu vindur fram, heimilislaus í ókunnu landi og fjarri fjölskyldu og tengslaneti, meðan barnsfaðir minn getur búið heima hjá sér og sinnt sinni vinnu. Ég fæ engan fjárhagslegan stuðning vegna málarekstursins – heldur ekki frá Finnlandi, eftir að þar var ákveðið að senda barnið mitt til Íslands, þrátt fyrir ýmis sönnunargögn sem ég gat lagt fram máli mínu til stuðnings. Ég hef heldur ekki sama aðgang að öllum gögnum málsins og barnsfaðir minn – ég tala ekki íslensku og þarf sjálf að standa straum af kostnaði við þýðingar eða biðja kunningja um aðstoð.
Hvernig má það vera að Ísland, eitt Norðurlandanna, fari svona með fólk? Hvar eru mín réttindi? Af hverju er ekkert tillit tekið til aðstæðna okkar mæðginanna? Þjóðerni foreldra ætti ekki að skipta máli þegar úrskurðað er í dómsmálum, en undanfarna mánuði hef ég hitt fjölda erlendra kvenna sem hafa tapað forræðismáli gegn íslenskum barnsföður á Íslandi.
„Mér líður eins og persónu í
Réttarhöldunum eftir Franz Kafka“
Mér líður eins og persónu í Réttarhöldunum eftir Franz Kafka, en munurinn er að hér er ekki skáldskapur á ferð. Sú tilhugsun að barnsföður mínum verði dæmt forræði barnsins okkar er óbærileg. Ég hef ekki tök á að flytja til lands þar sem verðlag er eins og hér, þar sem einstæðu fólki er nánast ógerlegt að leigja húsnæði, þar sem ég gæti ekki sinnt starfi mínu og gæti aldrei borgað þær skuldir sem hafa hrannast upp vegna forræðismálsins.
Málið snýst um annað og meira en forræði. Þetta er spurning um mannréttindi.
Erla E. Völudóttir þýddi yfir á íslensku.
Athugasemdir