Þórólfur Halldórsson sýslumaður er óánægður með umfjöllun Stundarinnar um réttarframkvæmd í umgengnis- og dagsektarmálum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í gær.
Í tilkynningunni eru engar efnislegar athugasemdir gerðar við fréttaflutning Stundarinnar, en sýslumaður tekur fram að honum finnist umfjöllunin óvægin, ógætin og ómálefnaleg.
„Það er umhugsunarvert að fjölmiðill skuli fjalla á jafn ógætinn hátt um persónuleg málefni einstaklinga og Stundin gerir í þessu máli m.a. með tilliti til persónuverndarlöggjafarinnar og 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands,“ segir í tilkynningunni sem er undirrituð af Þórólfi sjálfum og birt undir yfirskriftinni „Um Stundar sakir.“
Sýslumaður segir að „undanfarnar vikur“ hafi Stundin fjallað um „tiltekið umgengnismál með þátttöku annars málsaðila þess“. Vísar hann þá væntanlega annars vegar til pistils um „óréttlátt viðhorf til þolenda ofbeldis“ sem Sigrún Sif Jóelsdóttir fékk birtan á Stundinni þann 3. maí og hins vegar til umfjöllunar sem birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar er fjallað með almennum hætti um réttarframkvæmd í umgengnis- og dagsektarmálum og greint frá tilvikum þar sem börn voru þvinguð til umgengni við grunaða eða dæmda ofbeldismenn á fyrsta áratug þessarar aldar. Í sömu umfjöllun er vikið sérstaklega að máli Sigrúnar Sifjar og rætt við hana, en hinn málsaðilinn hafði áður tjáð sig um málið í fjölmiðlum.
„Eins og gefur að skilja getur sýslumaður ekki fjallað opinberlega um tiltekin mál, sem eru eða hafa verið til umfjöllunar á embættinu,“ segir í tilkynningu sýslumanns. Bent er á að árið 2017 voru samtals 585 umgengnis- og dagsektamál til meðferðar hjá embættinu. „Flestum málum lauk með samningi milli aðila, m.a. að undangenginni sáttameðferð hjá sérfræðingum embættisins í málefnum barna. Einungis þurfti að úrskurða í 56 ágreiningsmálum og þar af voru aðeins 15 úrskurðir kærðir til dómsmálaráðuneytisins.“
Þá bregst sýslumaður við umfjöllun Stundarinnar um tiltekinn sýslumannsfulltrú (sjá frétt hér til hliðar) og málsmeðferðina að baki tveimur úrskurðum sem hún kvað upp.
„Samkvæmt venju skrifar einn löglærður fulltrúi undir hvern úrskurð. Málsmeðferð og úrskurðir eru hins vegar afrakstur samvinnu starfsmanna,“ segir sýslumaður. „Sýslumaður er hreykinn af sínu starfsfólki og ber fullt traust til þess. Það býr yfir mikilli þekkingu á þessum erfiða málaflokki og vandar málsmeðferð í samræmi við lög og reglur sem um málaflokkinn gilda og leggur sig allt fram við að vanda málsmeðferð.“
Athugasemdir