Ögmundur Jónasson ritaði sunnudaginn 29. apríl grein á bloggsíðu sína. Þar viðrar hann skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar. En hugleiðing dagsins er hvort Halldóra Morgensen muni segja af sér. Mis-illa ígrundaðar og óskipulegar hugleiðingar um málefni Ásmundar Einars Daðasonar og Braga Guðbrandssonar koma svo í kjölfarið.
Hugleiðingar Ögmundar byrja á því að furða sig á hvers vegna slík firra kemur fram að ráðherra þurfi að segja af sér þó í ljós komi að hann hafi leynt Alþingi upplýsingum. Eftir að þessari vangaveltu Ögmundar hefur verið troðið inn í huga lesandans kemur smá sjálfshól. En Ögmundur virðist telja sér það til tekna að hafa staðið í vegi fyrir því að dómstólar geti dæmt foreldrum sameiginlegt forræði og viðurkennir að vera svolítill „mæðrahyggjumaður“ hvað svo sem það nú er. En ástæða grobbsins er til að segja frá því að misfalleg ummæli hafi verið látin falla um hann í kjölfar þeirrar gjörðar.
Talar Ögmundur þvínæst fallega um félagsmálaráðherrann okkar og segist veita hlutum athygli, sem mér finnst mjög jákvætt að Ögmundur sé ennþá við þá heilsu að geta gert það. En veltir svo upp mögulegri gagnrýni á Ásmund, sem mér finnst neikvætt, að Ögmundi detti í hug að setja út á sitjandi ráðherra. Næst kvartar Ögmundur undan gagnrýni og ummælum, nefnir spjallþætti og Alþingi, en fer nú ekkert nánar út í þau mál. Ögmundur gerir sjálfsagt ráð fyrir því að lesendur hans séu það vel upplýstir að þeir viti um hvað hann er að tala - því að ekkert er vitnað í téða gagnrýni né henni svarað á nokkurn hátt, kvartar bara undan því að hún sé til staðar.
Kemur nú að kjarna málsins. En hann er afdráttarlaus og skilyrðislaus stuðningur Ögmundar við Braga Guðbrandsson. Hvað það kemur upphafshugleiðingu hans við veit ég ekki.
Ef það væri eitthvað eitt sem ég vildi að Ögmundur tæki frá þessum skrifum mínum er þetta: Þú styður einstakling sem eftirfarandi er haft eftir; „Bragi bendir á að honum finnist ótrúlegt að ef maðurinn sé raunverulega með pedófílu að hann brjóti á dætrum sínum strax og hann fái að hitta þær.“. Bragi vill að börn séu neydd til að hitta hugsanlegan nauðgara sinn. Hann segir berum orðum að þó að hann (faðirinn) sé með barnagirnd og hafi mögulega nauðgað börnunum sínum þá er ekki líklegt að hann nái að gera það í einhverjum tilfellum og ætti þar af leiðandi að fá að hitta þau. Einnig er haft eftir forstjóra Barnaverndarstofu: „ ... Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það.“ Þetta er nóg fyrir mig til að eitthvað þurfi að endurskoða skipun Braga. Bragi laug einnig að afanum í tölvupósti þar sem eftirfarandi kemur fram „Ég skildi hana [starfsmann barnaverndarnefndar] svo að barnaverndin hafi ekkert við það að athuga að faðir systranna umgangist þær.“ En þessi ummæli voru meðal annars notuð til að réttlæta dagsektir á móðurina, en Dómsmálaráðuneytið felldi síðar þann úrskurð úr gildi.
Þegar hér er komið sögu tel ég mig verða að biðjast afsökunar fyrir hönd Ögmundar, þar sem hann virðist ekki koma nægu skipulagi á hugsanir sínar varðandi upphafsspurninguna, þessa um hvort Halldóra Mogensen ætti að segja af sér.
Nefnir Ögmundur nokkra þingmenn í vangaveltum sínum, tilviljun ræður því örugglega að allir eru þeir þessir síspyrjandi Píratar sem vilja ávallt komast að öllu: Þórhildur Sunna, Björn Leví og áðurnefnd Halldóra. Virðist Ögmundur hafa töluverðar áhyggjur af siðferði þeirra og spyr sig hvort að umræddir aðilar hafi áhyggjur af sálarlífi sínu þegar þeir eru að „koma höggi á einstaklinga og pólitíska andstæðinga sína“ en missir af kaldhæðninni sem fylgir því að hann sé að rita þessar hugleiðingar sínar á opinberum vettvangi.
Loks virðist Ögmundur hafa náð tökum á hugsunum sínum og fer mikinn um Halldóru og ummæli hennar þar sem hann fullyrðir að hún vilji að ráðherra segi af sér. Ef hann hefði bara lesið ummælin þá hefði ég getað farið út í vorið í stað þess að skrifa þessa grein. „Halldóra segir að ef frétt Stundarinnar sé rétt, þ.e. að ráðuneyti Ásmundar hafi búið yfir umræddum gögnum en leynt Alþingi þeim, sé Ásmundi Einari ekki sætt áfram á ráðherrastóli“. En staðreyndir hafa því miður ekki verið að þvælast mikið fyrir Ögmundi og hans líkum undanfarið.
Höfundur skipar 22. sæti á lista Pírata á Akureyri
Athugasemdir