Haukur Ingibergsson, stjórnarformaður ríkisstofnunarinnar Íbúðalánasjóðs, á leigufélag sem á og rekur sjö íbúðir í Kópavogi og á Akureyri. Fjórar íbúðir eru á Akureyri og þrjár í Kópavogi. Félagið, Ráðgjafaþjónustan ehf., var stofnað árið 1988 og er virkt á húsnæðismarkaði í uppkaupum á íbúðum.
Tvær af íbúðunum sjö sem félagið á voru keyptar árið 2016 og tvær voru keyptar í fyrra, 2017. Auk þess var ein af íbúðunum keypt 2014. Allar þessar íbúðir voru því keyptar eftir að Haukur settist í stjórn Íbúðalánasjóðs eftir stjórnarskiptin 2013 og voru einungis tvær af íbúðum félagsins keyptar fyrir þetta – önnur 1998 en hin 2009.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skipaði Hauk sem stjórnarformann Íbúðalánasjóðs í byrjun janúar síðastliðinn en Eygló Harðardóttir skipaði hann í stjórnina 2013.
„Ég tel ekki að þetta komi í veg fyrir hæfi mitt til að sitja í stjórninni.“
Athugasemdir