Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir mikilvægt að menn kynni sér mál Braga Guðbrandssonar og afskipti hans af viðkvæmu barnaverndarmáli í Hafnarfirði út frá öllum hliðum.
„Það er ekkert svart eða hvítt í þessu, það er það sem ég tel að sé mjög mikilvægt. Það er mjög auðvelt að sitja hvort sem er í stuttum spjallþáttum eins og þessum, eða að setja fram á prenti mjög einhliða mál í þessum barnaverndarmálum almennt,“ sagði ráðherra í Kastljósi í gær og bætti við: „Þetta er eitt dæmi um það. Þess vegna er svo mikilvægt að menn kynni sér málið út frá öllum hliðum og öllum upplýsingum sem þar liggja að baki og niðurstöðum ráðuneytisins sem þarna búa að baki. Hann hafi ekki gerst brotlegur í störfum, ég vil allavega trúa því að þær séu réttar.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, gagnrýnir Ásmund harðlega á Facebook og vísar til frumgagna sem Stundin birti í gær. Gögnin sýna að Bragi beitti sér fyrir því að faðir fengi að umgangast dætur sínar þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um að hann hefði misnotað þær kynferðislega. Um leið og Bragi setti þrýsting á starfsmann barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar átti hann ítrekuð samskipti við föður málsaðilans, en um sama leyti gleymdist tilvísunarbréf vegna meintra kynferðisbrota í pósthólfi Barnahúss auk þess sem Bragi segir tölvukerfi þess hafa bilað.
„Ásmundur Einar svarar því til í Kastljós, aðspurður hvað honum finnist um að Bragi Guðbrandsson hafi hlutast til í barnaverndarmáli til þess að koma því til leiðar að maður sem grunaður er um að hafa misnotað barnungar dætur sínar fengi að hitta þær, að „það séu tvær hliðar á öllum málum“ og að „ekkert í svona málum er svart og hvítt“,“ skrifar Þórhildur Sunna á Facebook. „Ég veit að Ásmundi hlýtur að vera kunnugt um gögnin sem Stundin birti í dag umfjöllun sinni til stuðnings. Gögnin sem sýna fram á þessi afskipti. Hvað er óljóst við þetta? Hvaða hlið sér Ásmundur á þessu máli aðra en þá augljósu? Hvers konar svör eru þetta frá ráðherra barnaverndarmála sem ávalt skal leyfa börnum að njóta vafans?“
Athugasemdir