Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 2. varaformaður velferðarnefndar Alþingis, gefur lítið fyrir umfjöllun Stundarinnar um þrýsting sem Bragi Guðbrandsson, frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, beitti barnavernd Hafnarfjarðar af samúð við fjölskyldu manns sem grunaður var um kynferðisbrot gegn dætrum sínum. Hann ætlar ekki að mæta á fund velferðarnefndar Alþingis á mánudaginn þar sem fjallað verður um málið.
„Sæl. Ég verð ekki á þessum fundi og ég les ekki Stundina, en er það fjölmiðill sem fólk tekur mark á aðrir en Píratar. Bkv Ási Friðriks.“
Þannig hljóðar tölvupóstur sem Ásmundur sendi þingmönnum í gærmorgun eftir að Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, hafði boðað til opins fundar með Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra.
Eins og Stundin greindi frá í gær hefur Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra búið yfir ítarlegum upplýsingum um afskipti Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmálinu – hvers eðlis málið var, hver afskipti Braga voru og hvaða samskipti Bragi átti við föður málsaðila – frá 31. janúar 2018.
Þann dag voru gögnin, m.a. afrit af tölvupóstssamskiptum og útdráttur símtals, afhent á fundi með aðstoðarmanni Ásmundar Einars, skrifstofustjóra og lögfræðingi í velferðarráðuneytinu auk þess sem þau voru sett ítarlega inn í málið, forsögu þess og málsatvik, aðkomu Braga Guðbrandssonar og ítrekuð samskipti hans við föður málsaðila í barnaverndarmálinu.
Ráðherra hélt öllum upplýsingunum leyndum fyrir Alþingi þegar hann sat fyrir svörum hjá velferðarnefnd þann 28. febrúar. Þetta gerði Ásmundur þrátt fyrir að hann hefði sjálfur boðað komu sína á fund nefndarinnar undir þeim formerkjum að hann vildi upplýsa rækilega um kvörtunarmál barnaverndarnefndanna og niðurstöður ráðuneytisins.
„Það er gríðarlega mikilvægt að velferðarnefndin setji sig vel inn í þetta mál. Þess vegna hafði ég samband við formann velferðarnefndar nú um helgina og óskaði sérstaklega eftir því að velferðarnefnd setti sig inn í þetta mál,“ sagði hann í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi 26. febrúar.
Ásmundur mun sitja fyrir svörum í nefndinni á mánudaginn en bæði Píratar og Samfylkingin hafa birt yfirlýsingar þar sem framganga ráðherra og upplýsingaleynd er gagnrýnd.
Athugasemdir