Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur nú setið að völdum í fjóra og hálfan mánuð. Það eru vel rúmlega þeir 100 dagar sem oft er talað um sem hveitibrauðsdaga nýrra stjórnvalda. Og því ætti að vera hægt að mynda sér þokkalega skoðun á því hvernig þessi ríkisstjórn hefur unnið og er líkleg til að vinna í framtíðinni.
Hver er einkunn hennar hingað til?
Skemmst er frá því að segja að þótt ég reyni af alefli að sýna ríkisstjórninni vinsamlega sanngirni, þá getur sú einkunn ekki orðið há.
Stjórninni mistókst mjög illilega, já, mistókst algjörlega, í mikilvægustu prófrauninni sem hún hefur gengið í gegnum en það var mál Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra. Embættisafglöp, hroki og yfirlæti Sigríðar voru svo mikil að morgunljóst var að hún átti að víkja úr ráðherrastóli. Það var þyngra en tárum taki að horfa upp á þingmenn og ráðherra Vinstri grænna lýsa trausti sínu á Sigríði en auðvitað var hlutur þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins jafn slæmur. Það er svo galið að einfalt og sjálfsagt mál eins og að Sigríður hlyti að víkja skuli í íslensku stjórnmálalífi verða að flokkspólitískum hráskinnaleik að það er geysilega brýnt verkefni að bylta því kerfi og þeim hugsanagangi sem þar býr að baki.
En ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar ekki að beita sér neitt í því efni. Katrín hafði tækifæri til að auka ábyrgð og heiðarleika í stjórnmálalífinu en hún kaus að sópa því frá sér.
Sjálfsagt vonast hún og hennar fólk til þess að þetta mál sé nú að baki og fólk gleymi því á endanum. Katrín muni óhikað áfram geta mætt brosmild og þó ábyrgðarfull á fundi og talað um heiðarleika í stjórnsýslu.
En ég get fullvissað hana og raunar alla þá sem reyndust sérstakir stuðningsmenn Sigríðar að þetta gleymist ekki og er afar stór mínus á einkunnaspjaldi stjórnarinnar.
Nú síðustu vikurnar hefur mál Hauks Hilmarssonar einnig verið á borði ríkisstjórnarinnar og hún virðist ófær um að ganga þar skörulega til verka.
En það sem þó er kannski allra verst í det lange löb við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er að nú er alveg óhætt að slá því föstu – sem maður hafði strax á tilfinningunni – að hún er fyrst og fremst mynduð um óbreytt ástand. Katrín Jakobsdóttir taldi bersýnilega að það væri til vinnandi að fara í ríkisstjórn með auðvaldinu af því hún myndi hafa svo góð áhrif, hún væri svo skynsöm og röggsöm að stjórn undir hennar forsæti hlyti að vinna eingöngu góð störf.
En hún virðist ekki hafa leitt hugann hið minnsta að því hver þau störf ættu að vera.
Það dugar ekki að ætla sér að föndra í forsætisráðuneytinu. Snyrta til þessa reglugerð, skipa starfshóp um þetta, halda huggulegar ræður um hitt. En lengra virðist hugmyndaflug Katrínar forsætisráðherra því ekki ná. Hún getur reynt að föndra eitthvað úr pípuhreinsurum, en auðvaldið fer sínu fram, fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ósköp dæmigert hægriplagg og ekki að sjá neinar vinstri áherslur. Móttökur þær sem verkalýðshreyfingin fær hjá þessari ríkisstjórn eru í engu, alls engu, frábrugðnar því sem hún fengi hjá venjulegri hægristjórn.
Nú skal vernda „stöðugleika“ ríka fólksins og þeirra sem hafa komið sér þægilega fyrir í lífinu.
„Hún er að þrefa við ljósmæður!“
Og svo langt eru VG gengin í björg hægri íhaldsins að nú er Svandís Svavarsdóttir lent í einhverjum geðvonskulegum orðahnippingum við ljósmæður – sem gera þó ekki annað en krefjast sanngirni og sjálfsagðra kjarabóta.
Við ljósmæður, athugið það, hún er að þrefa við ljósmæður!
Á sínum tíma var talað um að ríkisstjórn Alexanders Dubceks í Tékkóslóvakíu stefndi að „sósíalisma með mannlegu andliti“. Um þá tilraun má margt segja en því miður virðist mér að ótti margra um að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefði ekki meiri metnað en svo að verða „auðvaldið með mannlegu andliti“ hafi verið rétt.
Fyrir það getur ríkisstjórn með þátttöku VG ekki fengið háa einkunn. Þokkalegur árangur í föndri dugar ekki til að bæta fyrir fúsk og slugs í öðrum greinum.
Athugasemdir