Vinir Hauks Hilmarssonar ætla sér að fara til Sýrlands til að leita upplýsinga um afdrif hans. Þeir fjölmenntu á þingpalla í dag og óskuðu liðsinnis íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. „Við viljum bara fá bréf upp á það að við getum leitað að Hauki í friði,“ segir vinur Hauks.
Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði og vinur Hauks, kallaði eftir aðstoð þingheims af þingpöllum í dag. Lárus Páll bað þar þingmenn um að hjálpa sér að komast að því hvað hefði komið fyrir vin hans. „Hjálpið okkur í þessu. Það eina sem við þurfum er bréf sem segir að við megum fara á svæðið og leita að honum. Það er það eina sem við erum að biðja ykkur um núna. Það er fólk við landamærin og bíður að komast inn. Það er verið að bíða eftir svörum frá ykkur.“
„Við fáum engin svör“
Í samtali við Stundina segir Lárus Páll að það sem vinir Hauks séu að óska eftir sé að íslensk stjórnvöld beiti sér gagnvart tyrkneskum stjórnvöldum í því skyni að fá heimild fyrir vini og aðstandendur Hauks til að fara um það svæði Sýrlands þar sem Haukur er talinn hafa horfið. „Við höfum nefnt þetta á fundum með fulltrúum utanríkisráðuneytisins en þá vorum við vöruð við því að fara þangað út, íslenska ríkið gæti ekki tryggt öryggi okkar þar úti og við vorum beðin um að fara ekki. Við erum hins vegar tilbúin að taka þá áhættu, þegar öll sund lokast verður maður að grípa til örþrifaráða. Þetta er að verða núna eini möguleikinn sem við höfum, allt annað er að verða þrautreynt. Við fáum engin svör, það er enginn að leita að Hauki. Svæðið er undir stjórn Tyrkja, bandamanna íslenskra stjórnvalda, og það ætti því að vera hægðarleikur að fara þangað og um svæðið.“
Lárus segir að fólk sé tilbúið til að fara til Sýrlands að leita að Hauki, bæði vinir hans hér heima og erlendis. „Það er fólk í biðstöðu sem bíður bara eftir að geta komist til Sýrlands. Við viljum að íslensk stjórnvöld fái Tyrki til að veita okkur heimild til að fara um svæðið án truflana svo við getum farið um svæðið. Við viljum bara fá bréf upp á það að við getum leitað að Hauki í friði.“
Óvissan erfiðust
Ef slík heimild fáist þá muni hópur fólks fara til Tyrklands og hefja leit að Hauki á þeim slóðum sem síðast er vitað til að hann hafi verið staddur á. Til þess verði beitt öllum þeim meðölum sem tiltæk séu. „Hann gufaði ekki upp, líkami hans er ekki horfinn. Hann steig ekki upp til himmna, hann Haukur. Hann er einhvers staðar. Erfiðasta hugsunin er hins vegar þessi: Hvað ef hann er á lífi? Hvað ef hann er í haldi Tyrkja sem hryðjuverkamaður? Þangað til að við vitum hvað gerðist er og hvernig þetta bar að, þá er alltaf þessi óvissa. Hún er eiginlega erfiðust, það er svo erfitt að ná einhverri sátt þegar svona margir endar eru lausir.“
„Þegar öll sund lokast verður maður að grípa til örþrifaráða“
Lárus segir jafn framt að hvort heldur sem leyfi fáist til að fara til Sýrlands frá Tyrkjum eða ekki þá verði farið. „Það væri auðvitað best ef við gætum flogið til Tyrklands og keyrt síðan yfir landamærin í friði. Það er það sem við viljum að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir. En ef það gerist ekki þá finnum við aðrar leiðir.“
Athugasemdir