Leigufélag VR, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, hefur auglýst eftir fjölbýlishúsi til kaups á höfuðborgarsvæðinu. Óskað er eftir húsi með að lágmarki 20 íbúðum og er tiltekið að kostur sé ef þær séu misstórar. Stefnt er að því að bjóða félagsmönnum VR íbúðirnar til leigu, ef viðunandi eign finnst.
Í auglýsingunni kemur fram að húsið þurfi að vera í mjög góðu ásigkomulagi en megi einnig vera í byggingu og jafnvel óbyggt. Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, segir að þegar hafi verið leitað til verktaka og fasteignasala og skoðaðar hafi verið eignir. Hins vegar hafi verið tekin ákvörðun um að auglýsa einnig með þessum hætti til að kanna hvað í boði sé á markaðnum.
Allt kemur til greina
Stefán segir að kaupin verði fjármögnuð annars vegar með eigin fé leigufélagsins, sem komi frá VR, og með lántöku. Þegar hafi verið rætt við fjámálastofnanir um lántöku.
„Við erum með vonir um að þetta gangi hratt fyrir sig en það verður hins vegar að ráðast af því hvaða tilboð við fáum í hendurnar. Við erum helst að leita eftir nýju eða mjög nýlegu húsi en í sjálfu sér kemur allt til greina, og einnig hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu.“
Stefán segir jafnframt að þó að stefnt sé að því að það séu félagsmenn VR sem geti leigt af leigufélaginu sé það þó ekki svo að skipti fólk um störf og fari í önnur stéttarfélög verði það að flytja úr íbúðunum. „Hugmyndafræðin bak við þetta er húsnæðisöryggi og lág leiga.“
Leigufélag VR var stofnað í febrúar síðastliðnum og er markmiðið með félaginu að hafa áhrif í átt að heilbrigðari leigumarkaði, að því er kom fram í grein eftir Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, sem birt var á síðu félagsins. Nýta á fjármuni úr Félagssjóði VR til verkefnisins. Vonir standa til að hægt verið að bjóða 15-30 prósent lægri leigu en gerist á almennum markaði.
Athugasemdir