Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um að komið verði á fót nýjum dómstóli, Endurupptökudómi, sem komi í stað endurupptökunefndar og vill að ráðherra fái meira svigrúm til vals á dómurum heldur en venjan er.
Endurupptökudómur mun samanstanda af fjórum dómurum og fjórum varadómurum. Þrír dómaranna verða embættisdómarar tilnefndir af Hæstarétti, Landsrétti og dómstjórum héraðsdómstólanna. Fjórða staðan verður auglýst og skipað í hana samkvæmt reglum um hæfnismat dómnefndar um hæfni umsækjenda.
Athygli vekur að í frumvarpi ráðherra er sérstaklega tilgreint að hver tilnefningaraðili skuli tilnefna tvo aðila en svo komi það í hlut ráðherra að ákveða hvor þeirra verði aðalmaður og hvor verði varamaður. Einnig er dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómarastöður gert að „tilnefna tvo hæfustu umsækjendurna til setu í Endurupptökudómi, án þess að gert sé upp á milli hæfni þeirra og án þess að nefndin tilgreini hvor skuli vera aðalmaður og hvor varamaður“.
Með þessu er ráðherra fengið meira svigrúm til vals á dómaraefnum heldur en venjan er. Í frumvarpinu kemur þó einnig fram að til samræmis við meginreglu stjórnsýsluréttar um að ráða beri hæfasta umsækjandann í starf sem auglýst er geti dómnefndin vikið frá fyrirkomulagi laganna ef annar þeirra tveggja sem hún metur hæfasta „telst bersýnilega hæfari en hinn“ og er þá dómnefndinni heimilt að tilnefna þann hæfari sem aðalmann og hinn sem varamann.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að í ljósi þess að ráðherra fari með veitingarvaldið og beri ábyrgð á skipun dómara verði ráðherra að hafa talsvert svigrúm til mats í stað þess að kvitta gagnrýnislaust upp á tillögur dómnefndar. „Valdið til að skipa dómara á að vera í höndum ráðherra en ekki hjá andlitslausri stjórnsýslunefnd,“ sagði Sigríður í umræðum um vantrauststillöguna gegn henni á Alþingi þann 6. mars síðastliðinn.
Eins og Hæstiréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestu í fyrra misbeitti Sigríður valdinu til að skipa dómara þegar hún fór gegn mati hæfnisnefndar við skipun Landsréttardómara án þess að fylgja rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og sýna fram á að nýju dómararnir væru hæfustu umsækjendurnir til starfans. Hefur ráðherrann hvatt til breytinga sem styrki og skýri stöðu ráðherra sem veitingarvaldshafa við dómstólana.
Athugasemdir