Taj Sultan er fimm stjörnu hótel með einkaströnd, tvær sundlaugar, einni úti og einni inni, tennisvöll, heilsulind, að sjálfsögðu tyrkneskt bað og líkamsræktarstöð. Það hefur veitingastað, kaffihús, bar með sundlaug og whiskey og píluspil, garð og í garðinum er leiksvæði og vatnasvæði og annað svæði til útreiðar. Það hefur svæði með nuddurum og nuddpotti. Hárgreiðslustofu og snyrtistofu.
Allt þetta fæst fyrir um 30 evrur á dag.
Og öll fimm stjörnu hótel eru þannig í Hammamet. Á Hasdrubal hótelinu er einnig hægt að fá golfkennslu fyrir fimm evrur að auki. Slík eru þau öll, allstaðar í Túnis.
Hvernig er það mögulegt?
Ógreiddar skuldir. Túnis er eina landið þar sem arabíska vorið gekk eftir. Eftir 28 daga mótmæli, 14. janúar 2011, sagði af sér Ben Ali forseti og flúði til Saudi Arabíu. Í dag hefur Túnis nýja stjórnarskrá og nýja ríkisstjórn, samsteypustjórn með frjálslyndum og íslamískum harðlínuflokkum, sem er borin á borð sem fyrirmynd fyrir hinn múslímska heim. Eina vandamálið sem við heyrum frá sérfræðingum er hagkerfið vegna hryðjuverkaárásanna árið 2015. Vegna harðlínumanna. Ef aðeins ferðamennirnir kæmu aftur, fáum við að heyra, þá væri Túnis frábær staður til búsetu.
Það er mun einfaldara að losa sig við ríkisstjórn en að byggja upp nýtt kerfi
Shayma vinnur í móttökunni á einu af þessum frábæru hótelum, tólf tíma á dag, alla daga vikunnar. Fyrir það fær hún 400 dinar á mánuði; það er undir 200 evrum. Þó svo að ferðamennirnir kæmu aftur myndi það ekki breyta neinu fyrir hana.
Ástæðan er að það sem átti að endurlífga efnahag Túnis, er einmitt það sem aftrar framförum þess.
Og þetta snýst ekki um harðlínumenn. Þetta snýst alfarið um banka – þó svo að harðlínumennirnir í kringum þá séu ekki til mikillar hjálpar. En undir stjórn Ben Ali fékk ferðamannaiðnaðurinn stór lán frá bönkum, lán sem ansi oft voru ekki greidd. Þar voru á ferð fáeinir viðskiptamenn með góða tengingu við fjármálaöflin, fólk með óæskilegan markaðsaðgang. Í dag er 25 prósent af ógreiddum skuldum enn í tengslum við ferðaþjónustu: samtals 1,3 milljarðar evra. En ríkið hylmir yfir það með því að endurfjármagna stöðugt þessa þrjá banka sína sem ráða yfir næstum helmingi fjármagnsins í Túnis. Og leyfir fimm stjörnu hótelum að taka aðeins 30 evrur á dag.
Í stað þess að fjármagna mennta- og heilbrigðisþjónustu, eru sumarfrí okkar fjármögnuð
„Lítið hefur breyst, í dag er slagorðið þjóðarsamvinna,“ segir Sami Ben Gharbia, einn af stofnendum Nawaat sem var sameiginlegur umræðuvettvangur vöggu byltingarinnar. „En þegar umræðan kemur að kjarna málsins, þá er sagt að það verði að ná stöðugleika áður en hægt sé að breyta kerfinu.“ Það er satt að samsteypustjórnin bjargaði Túnis frá örlögum Egyptalands, eða enn verri örlögum Sýrlands og Jemens, en breytingarnar urðu fastar í endalausu breytingarferli. Þetta snýst ekki um skort á fjármagni. Frá árinu 2011 hefur Túnis fengið 7 milljarða dollara í alþjóðlegri aðstoð, og nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitt 2,8 milljarða dollara viðbótarlán. Þetta snýst um spillingu. Undir stjórn Ben Ali fékk fjölskylda hans og 214 fyrirtæki þeirra 13 milljarða dollara. Þau stóðu að baki þremur prósentum fyrirtækja í einkageiranum og einu prósenti atvinnulífsins, en til þeirra rann 21 prósent af fjárlögum landsins. Hann og hans ættingjar stjórnuðu 25 prósentum af hagkerfinu. Í raun hefur ekkert breyst. Í september voru ný fyrningarlög samþykkt á þinginu og gömul spillingarmál fyrndust. Það er ástæða þess að mótmælin hafa í raun aldrei hætt. Upphafsdagur byltingarinnar er ekki 14. janúar, daginn sem Ben Ali var settur af, hann er 3. janúar sem er upphafsdagur Brauð-byltingarinnar árið 1984. Byltingarhreyfingin kallar sig Fesh Nestannew? - Eftir hverju bíðum við? – og slagorðið er „Burtu með fjárlagafrumvarpið“.
„Það hljómar sem bergmál af hinu þekkta slagorði frá 2011: „Burtu með stjórnina“. En nú er verið að mótmæla einkavæðingu og niðurgreiðslum, skattahækkunum og uppsögnum hjá hinu opinbera. Og það er ástæða þess að ekki verður ný bylting, að sögn margra byltingarsinna. Það er ekki eingöngu sökum þess að við erum reynsluríkari eftir sjö ár og vitum hvaða erfiðleika við höfum að glíma við, og hver áhættan er,“ segir Sami Ben Gharbia. „Það er einnig sökum þess að mun auðveldara er að fella stjórn en að byggja upp nýtt og betra kerfi“.
Sidi Bouzid – þar sem allt byrjaði
En fyrir utan höfuðborgina Túnis er tómahljóm í varfærnum orðum byltingarsinna. Á landsbyggðinni hefur fólk engu að tapa. Undir stjórn Ben Ali fóru tveir þriðju hlutar allra fjárfestinga til strandbyggða Túnis, Sfax og Sousse, þriggja stærstu borganna sem standa að baki 85 prósent af þjóðarframleiðslu. Restin er bara sóðalegt svæði með ryki og fátækt. Sidi Bouzid er um 500 kílómetra frá Túnis, bærinn þar sem þetta allt byrjaði. Það var þar sem hinn 26 ára ávaxta- og grænmetissali Mohammed Bouzazi bar eld að sjálfum sér eftir að söluvagn hans var gerður upptækur. Hann hafði séð fyrir sér sjálfur frá tíu ára aldri, föðurlaus og elstur af fimm barna hópi. Í dag er aðalgata bæjarins nefnd í höfuðið á honum. En það er eina breytingin. Á fimm árum hefur atvinnuleysi tvöfaldast, úr 14 í 28 prósent, en allar tölur eru í raun mun hærri þar sem fólk nær ekki að lifa á launum sínum. Hin raunverulega tölfræði á við um fólk á þrítugsaldri sem ráfar um án markmiða, í Sidi Bouzid sem og annars staðar. Heitasta ósk þess er að fremja sjálfsmorð, sjálfsmorð eins og Mohammed Bouzazi framdi, því það segir að er allt kemur til alls, þá erum við dauð nú þegar.
Sidi Bouzid er svona staður þar sem þú finnur ekki einu sinni kínverskar eftirlíkingar, eingöngu gamla notaða hluti. Við fyrstu sýn ruglar maður sölumörkuðum við ruslahauga, þetta er staður þar sem mæður selja bangsa barna sinna sama dag og þau vaxa upp úr honum. „Við vorum fangar eigins lands, höfðum ekki málfrelsi, nú erum við frjáls. En við finnum enga breytingu,“ segir Hamza Saadaoui. „Þú getur tjáð þig, en orð þín eru áhrifalaus“.
Útlendingahermenn
Eingöngu fáeinir byltingarsinnar frá 2011 sitja á þingi. Byltingin var bylting ungmenna, en í dag er forsetinn, Beji Caid Essebsi, 92 ára gamall. Og meðal þeirra sem sitja við völd er einnig hin verðlaunaða verkalýðshreyfing sem fékk friðarverðlaun Nóbels ásamt þremur öðrum hreyfingum fyrir þátt sinn í að koma á stöðugleika í Túnis. Í dag er staða þeirra umdeild. Þær náðu til dæmis þeim árangri í Gafsa að fósfatverksmiðjur urðu að ráða til sín mun meira fólk án þess að þær hefðu möguleika á að auka framleiðslugetu. Í suðurhluta landsins er eingöngu átta prósent atvinnu í einkageiranum. Það finnst engin vinna, það er staðreynd. Það er einnig staðreynd að vel menntað ungt fólk eyðir tíma sínum fyrir utan ráðningarstofur og bíður eftir lausum stöðum hjá hinu opinbera.
Áður fyrr fóru íbúar Túnis til Ítalíu. Þeir fóru frá Zarzis, nálægt Djerba. Það var sá staður sem er næst Ítalíu. Enn þann dag í dag er gengið með ströndinni má sjá skó. Skó og bátaflök. En í dag er einnig djúp fjármálakreppa á Ítalíu og með heppni er hægt að fá illa launaða vinnu á tómataökrum. Eða sem eiturlyfjasali. Svo síðustu árin hafa 27.000 túnisarar fundið sér aðra áfangastaði; þar sem harðlínumenn berjast. Um 6.000 hafa gerst útlendingahermenn og 900 af þeim hafa snúið til baka. Eða réttara sagt; 900 sitja í fangelsi. Margir aðrir hafa smyglað sér heim til úthverfa höfuðborgarinnar, staða sem Ettadhamen, staður sem Essebsi heimsótti fyrir skömmu til að opna ungmennaheimili, og til að lægja uppreisnaröldur. Þetta var í fyrsta sinn sem háttsettur embættismaður hefur heimsótt Ettadhamen. Þó svo það taki undir 20 mínútur að fara í sporvagni frá miðborginni til Ettadhamen. En það er annar heimur. Heimur með litlum steinhúsum, engu öðru. Stærsti munaðurinn sem finnst þar er Carrefour, hin franska verslunarkeðja. Í Ettadhamen hljómar jafnvel Sýrland sem möguleiki á betra lífi. Lítill strákur lítur upp og segir; „Ettadhamen er ekki svona. Fyrir nokkrum dögum voru göturnar hreinsaðar og lappað upp á ljósastaura. Allt ruslið var fjarlægt. Svo birtist Essebsi og hann opnaði þessa miðstöð með hrúgu af stólum og bókum. En það er ekki hægt að borða bækur. Hér eru allir svangir“.
Ekki langt frá er sjónvarpsteymi að mynda úturdópaða unglinga. „Ef þú ert algjörlega streit“, segir einn af þeim, „munt þú kveikja í þér og öllum umhverfis þig“.
Svona fór draumurinn um arabíska vorið.
Stuðst er við grein eftir ítalska rithöfundinn Francesca Borri.
Athugasemdir