Framkvæmdir borgarinnar við Miklubraut ofan Klambratúns voru skrípaleikur sem kostaði gríðarlega fjármuni, sem betur hefðu verið nýttir fyrir fjársvelta leikskóla borgarinnar. Þetta skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í pistli í Fréttablaðinu þar sem hann vandar Degi B. Eggertssyni borgarstjóra síst kveðjurnar.
Kári lýsir í grein sinni í löngu máli hverja gleði hann hafði af því sem barn að iðka leiki sína, ásamt öðrum börnum, á Klambratúninu. Landið hefði þar gert sitt til að ala upp börnin sín, þar hefði í þeirra huga verið helgur staður og það hefði aldrei kunnað góðri lukku að stýra að vanvirða slíka staði á Íslandi.
Dagur og Trump vilji báðir reisa veggi
„Í fyrra sumar sáum við svo núverandi borgarstjóra burðast við að reisa vegg meðfram suðurhlið Klambratúns. Umferð um Miklubraut milli Lönguhlíðar og Rauðarársstígs riðlaðist svo mánuðum skipti og her manns hafði vinnu af þessum skrípaleik. Heildarkostnaður af veggnum og fiktinu í Miklubraut var um fimm hundruð milljón krónur, sem hefði annars mátt nýta fyrir fjársvelta leikskóla borgarinnnar,“ skrifar Kári. Hann bætir við að löngunin til að reisa veggi virðist hafa tilhneigingu til að bera skynsemi stjórnmálamanna ofurliði, það sjáist best á Degi B. Eggertsyni og Donald Trump. Lengra nær þó samanburður Kára ekki heldur segir hann muninn á þeim tveimur liggja í því að „Trump er yfirlýstur fasisti þannig að það býst enginn við öðru en hann reisi veggi þar sem hann fær því við komið, en Dagur er félagshyggjumaður sem við hefðum búist við að setti þarfir barna ofar löngun sinni til þess að skreyta Klambratúnið með hrákasmíð.“
Innheimta leikskólagjalda grátleg
Kári heldur áfram að gagnrýna það sem honum sýnist döpur meðferð á almannafé og minnir á að Dagur hafi eytt talsverðum fjármunum í að láta mála myndir eftir Erró á fjölbýlishús í Breiðholti. „Hann er borgarstjóri þar sem leikskólar eru eina stig skólakerfisins þar sem nemendur borga skólagjöld, sem er grátlegt vegna þess að foreldrar þeirra eru á þeim aldri þegar tekjur þeirra og eignir eru minnstar og nauðsynjaútgjöld hæst. Það er dapurlegt að fylgjast með því hversu auðveldlega hégóminn leggur félagshyggjuna að velli þegar menn komast til valda. Við þurfum hins vegar ekki að hafa áhyggjur af því að Dagur fái mörg fleiri tækifæri til þess að brjóta pólitísk prinsipp sem hann segist aðhyllast vegna þess að Klambratúnið er hefnigjarnt og fyrirgefur ekki dónaskap eins og veggómyndina. Það er farið að rökkva og Dagur að kveldi kominn.“
Athugasemdir