Það er greinilegt á umræðum innan verkalýðshreyfingarinnar að Alþingi er með ríkisstjórnina í broddi fylkingar búið að ganga kirfilega fram af launamönnum, ekki síst þeim hópum sem liggja á lágmarkstöxtum kjarasamninga. Kornið sem fyllti mælinn er sjálftaka þingmanna í skattfrjálsum greiðslum umfram það sem venjulegum launamönnum stendur til boða auk launahækkana langt umfram það sem venjulegu fólki á vinnumarkaði stendur til boða.
Bjarni Benediktsson hefur gengið lengst fram allra í því að ögra launamönnum þar sem hann veifar glaðbeittur Excel-skjölum byggðum á meðaltölum og hann fullyrðir að allir hafi það mjög gott á Íslandi. Kaupmáttur hafi aukist langt umfram það sem þekkist annars staðar. Allar tölur hans eru réttar. En meðaltöl launa segja okkur ekkert um stöðu þeirra sem liggja á lágmarkstöxtum.
Öll þekkjum við fjölskyldur sem eiga vart til hnífs og skeiðar og er gert að búa við aðstæður sem fólk sættir sig ekki við hér á landi. Þetta fólk á enga möguleika á að eignast íbúð, og það sem eftir stendur, þegar húsaleigan á öríbúð hefur verið greidd, dugar engan veginn fyrir því sem fjölskylda þarf til þess að geta lifað mannsæmandi lífi.
Raunhækkun þingmanna og efstu laga stjórnsýslunnar, það er að segja launahækkanir ásamt samsvarandi hækkunum á skattfrjálsum endurgreiðslum á kostnaði, hvort sem hann er til staðar eða ekki, er líklega nálægt 500–800 þús. kr. á mánuði, er kannski ekki voðalega há prósentutala ofan á 1,5 millj. kr. tekjur auk skattfríðinda.
Samanburðurinn hjá fólkinu á lágmarkstöxtunum er hins vegar sá að nú stendur til að hækka laun fólks á lágmarkstöxtum um 3%, eða nálægt 6.000 kr. á mánuði, samsvarar launahækkun til dæmis fjármálaráðherra ein og sér þeirri launahækkun sem hann er að bjóða 120 ræstingakonum og fullyrðir að sé rausnarlegt og best í heimi. Semsagt meðaltöl segja okkur ekkert um stöðuna í launamálum.
Fólk sem vinnur fullan vinnudag og fasta yfirvinnu og er á lágmarkstöxtum.
Verkalýðshreyfingin hefur fylgt svokallaðri raunsæisstefnu frá því að þjóðarsátt var gerð 1990. Það hefur leitt til mikilla kaupmáttarhækkana, en undanfarin ár hefur launamönnum hins vegar í vaxandi mæli verið sýnd löngutöngin af stjórnvöldum og svo er komið að í dag rennur langstærstur hluti arðsins í vasa fárra. Efstu lögin með stjórnvaldið fremst í flokki hefur komið málum þannig fyrir að hagræðingin hefur ekki skilað sér til verkafólks og þar má fullyrða að það eigi við kvennahópana á vinnumarkaðinum langt umfram aðra.
Það hafa orðið vatnaskil og við stjórnvöldum blasir erfiðir dagar. Þessir dagar verða Sjálfstæðismönnum vafalaust erfiðir en hún verður erfið þrautaganga Vinstri grænna sem hafa misst forystuhlutverk sitt í Vinstrinu yfir til Pírata og Samfylkingar. Sjálfstæðisflokkurinn er talsmaður þeirra sem hafa hagnast mest á þróuninni undanfarin ár og hann einn ræður öllu í samstarfi við aðra flokka.
En nú hafa launamenn ásamt lífeyrisþegum staðið upp og sagt: „Hingað og ekki lengra.“
Athugasemdir