Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur áhyggjur af „fölskum fréttum“ og segir slík mál hafa komið til umræðu í þjóðaröryggisráði.
„Við höldum vöku okkar. Þetta er eilífðarbarátta og nokkuð sem við getum ekki slakað neitt á með,“ sagði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun þegar Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, átti orðaskipti við hann.
„Að berjast gegn fölskum fréttum er þjóðaröryggismál og mikilvægt mál í hagsmunagæslu ríkja á alþjóðavettvangi. Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er fylgst með fölskum fréttum og þær skrásettar er varða Ísland og íslenska hagsmuni? Er brugðist við fölskum fréttum er varða Ísland og íslenska hagsmuni?“ sagði Birgir.
Hann nefndi að falskar fréttir vörðuðu oft varða viðskiptahagsmuni, kosningar og ímynd ríkis út á við og sagði að tilgangur þeirra væri að „hafa neikvæð áhrif á hagsmuni, innlenda sem erlenda, þess ríkis er þær beinast að“.
Þá hvatti hann ráðherra til að setja á laggirnar „einhvers konar teymi í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóra og greiningardeild ríkislögreglustjóra“ til að sporna gegn fölskum fréttum.
Guðlaugur sagði að fylgjast þyrfti enn betur með og leggja enn meiri áherslu á þessi mál en gert hefði verið fram til þessa.
Þá bætti hann við: „Sem við höfum samt svo sannarlega gert, að koma réttum upplýsingum áleiðis, leiðrétta staðreyndavillur og hreinlega falskar fréttir þegar kemur að Íslandi. Þannig að það er ekkert nýtt í því.“
Athugasemdir