Mikil skelfing greip um sig í verkalýðsfélaginu Eflingu þegar hópur fólks í appelsínugulum göllum og flíspeysum bauð sig fram til starfa innan vébanda félagsins. Þjóðin fylgdist í ofvæni með eigendum félagsins reyna að reka þessa óværu af sér með öllum tiltækum vopnum, svo sem leynilegum félagaskrám, þögn og þumbarahætti og síðan þegar allt virtist koma fyrir ekki, leiðbeiningum til þeirra sem mættu til að kjósa i höfuðstöðvum félagsins um hvernig fylla ætti út atkvæðaseðilinn.
Maður veit eiginlega ekki alveg hvort er neyðarlegra fyrir félagselítuna, að vinna kosningu við slík skilyrði, eða tapa henni. En svona sýndarlýðræði þykir boðlegt í mörgum stjórnmálaflokkum og félögum, þar sem litlar klíkur, sem hafa komið sér vel fyrir, smíða hindranir og girðingar til að tryggja að völdin falli ekki þeim í hendur sem vilja breyta neinu sem máli skiptir fyrir þá sem hafa komið sér vel og þægilega fyrir.
En í þetta sinn höfðu menn ekki erindi sem erfiði. Þjóðin varð vitni að því hvernig Sólveig Anna Jónsdóttir bókstaflega valtaði yfir frambjóðanda fráfarandi stjórnar og trúnaðarráðs og fékk 80 prósent allra greiddra atkvæða.
Þrælar nútímans
Félagsmenn í Eflingu eru 27 þúsund samkvæmt heimasíðu félagsins en einungis 16 þúsund þeirra hafa atkvæðisrétt, þótt þeir hafi greitt í félagið. Innan Eflingar bera stórir hópar kvenna minnst úr býtum. Þetta eru konurnar sem gæta barna, án þess að hafa aflað sér starfsréttinda, þær sem skúra gólfin og þvo bollana og glösin og passa að gamla fólkið fari sér ekki að voða, gefa því mat og lyf og hjálpa því að baða sig og klæða sig og nærast. Samkvæmt launakönnun Eflingar frá því í október eru launin fyrir ræstingar um 328 þúsund krónur á mánuði og leiðbeinendur á leikskólum eru með litlu meira eða 354 þúsund og þeir hafa engan möguleika á því að hífa upp launin með yfirvinnu.
Þessi laun duga ekki til að reka heimili og einstæðir foreldrar í þessum hópi þurfa stundum að láta sig hafa það að leita til hjálparstofnana eða sækja um bætur til að hafa í sig og á. Samt er það svo að þótt stjórnmálamenn skipi nefndir og geri sig heilaga í framan þegar rætt er um fátækt á Íslandi, þá reiða opinberar stofnanir sig á ódýrt vinnuframlag þessa fólks og væru í raun óstarfhæfar án þess. Það er mikill tvískinnungur og jaðrar við nútíma þrælahald.
Útlenskar konur í erfiðustu málunum
Sólveig Anna er kona eins og helmingur félagsmanna Eflingar. Það skiptir máli. Meðalheildarlaun karla í Eflingu voru í nóvember 531 þúsund krónur á mánuði og meðalheildarlaun kvenna um 405 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf. Kjör kvenna eru því talsvert lakari og það eru ekki margar konur í áhrifastöðum innan hreyfingarinnar.
„Þessi bylting í verkalýðsfélaginu Eflingu er hluti af ólgu sem á sér stað víðar í verkalýðshreyfingunni“
En það skiptir líka miklu máli að hafa fólk af erlendu bergi brotnu með í stjórninni eins og þrír frambjóðendur B-lista Sólveigar Önnu. Tæpur helmingur félagsmanna í Eflingu á annað móðurmál en íslensku og verkalýðshreyfingin verður að taka mið af þessum breytingum á vinnumarkaði svo stórir hópar einangrist ekki.
Undanfarið hefur verið unnið að samanburði á launakjörum íslenskra starfsmanna og erlendra, niðurstöðurnar hafa ekki verið gerðar opinberar en eftir því sem næst verður komist er munurinn umtalsverður, jafnvel meiri en tíu prósent. Í lífskjarakönnun Gallups fyrir Eflingu og Flóabandalagið í nóvember í fyrra kom líka fram að Pólverjar greiddu að meðaltali mun hærri húsaleigu en Íslendingar, eða 2.375 fyrir hvern fermetra meðan Íslendingar greiddu 1.809 krónur. Það er því ljóst að erlendir starfsmenn í láglaunastörfum á Íslandi búa við mun lakari lífskjör en Íslendingar og var þó ekki af miklu að taka.
Það er víða ólga
Ég held að þeir sem standa vörð um kerfið vanmeti hvað það er sálrænt erfitt og lamandi að samfélagið líti á það sem normalt ástand að launin sem þú færð eftir langa vinnuviku dugi ekki til að greiða reikninga og reka heimili. Að þú festist í skuldasúpu, þurfir að neita börnum þínum um það sem börnum annarra finnst sjálfsagður hlutur, að það sé of dýrt að leita læknis, láta gera við skemmdar tennur eða reka bíl.
Auðvitað ber verkalýðshreyfingin ekki alla ábyrgð á þessu ástandi. Margt af því fólki sem hefur starfað innan verkalýðshreyfingarinnar er gott fólk, sem hefur unnið af heilindum og hugsjón fyrir réttlátara samfélagi en einhvers staðar á leiðinni gafst sumt af því upp og fór að líta á núverandi vanmat á framlagi láglaunafólks sem óhjákvæmilegt ástand.
Þessi bylting í verkalýðsfélaginu Eflingu er hluti af ólgu sem á sér stað víðar í verkalýðshreyfingunni. Hún beinist í raun ekki gegn einstaka forystumönnum, heldur sjálfu kerfinu, og hún beinist einkum og sér í lagi gegn þeirri bjargföstu trú, sem því miður hefur líka náð að skjóta rótum innan hreyfingarinnar, að misskiptingin sé náttúrulögmál og stórir hópar fólks þurfi að fara á mis við lífið, vegna erfiðis og fátæktar. Öðruvísi sé ekki hægt að reka hérna samfélag.
Það er gott fyrir sjálfsvirðinguna að fara á kjörstað og greiða atkvæði í kosningum, þótt byltingar standi yfirleitt ekki og falli með einu atkvæði. Og þótt þessi bylting í verkalýðsfélaginu Eflingu kæmi engu öðru til leiðar, hefur hún samt sýnt svo ekki verður um villst að samtakamátturinn er enn til staðar, enginn getur lengur gengið að sæti sínu vísu í hreyfingunni. Íslenskir karlar gætu þurft að standa upp fyrir svo sem einni og einni konu eða útlendingi. Það drepur þá ekki, en gæti aftur á móti kveikt mikið líf í baráttunni fyrir samfélagslegu réttlæti.
Gömul og fúin kerfi hafa skolfið af minna tilefni.
Athugasemdir