Eftir að hafa afneitað eigin lögbroti og hótað þingmönnum í ræðustóli að þeirra atkvæða yrði „minnst“ fékk Sigríður Andersen stuðning þingmanna Vinstri grænna til þess að halda áfram sem dómsmálaráðherra. Vinstri græn misstu sakleysið og gengu gegn ungliðahreyfingu sinni, stjórnarsáttmála og stjórnmálahefð sinni þegar þau vörðu hana vantrausti.
Ástæðan var fyrst og fremst tvíþætt, samkvæmt útskýringum flokksmanna og forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur. Annars vegar að ekki væri hægt að afturkalla skaðann af lögbroti hennar, það er að segja réttaróvissu og vantrausti á dómstóla og stjórnmál, og hins vegar sögðu tvær þingkonur Vinstri grænna að þær yrðu að styðja Sigríði Andersen vegna þess að annars gæti Sjálfstæðisflokkurinn slitið ríkisstjórnarsamstarfi við Vinstri græna. Og þá væri Katrín Jakobsdóttir ekki forsætisráðherra, sem væri forsenda umbóta- og framfaramála.
Nú væri ábyrgðin ljós
Sjálf sagði Sigríður að það væri gott að vantrauststillaga kæmi fram, vegna þess að þá væri ljóst að hún bæri ábyrgðina á skipun dómara. Það er að segja, að sérfræðingarnir sem hún hunsaði í ráðuneytinu þegar þeir vöruðu hana við og óháða hæfisnefndin sem valdi 15 hæfustu, sem hún sniðgekk að hluta þegar hún valdi meðal annars eiginkonu þingmanns flokksins hennar og eiginmann fyrrverandi samstarfskonu hennar til margra ára, hefðu ekki valdið og bæru ekki ábyrgðina, og því hefði hún ekki þurft að hlusta á þá. Áður hafði hún sagt að Alþingi bæri ábyrgðina, en eftir að í ljós kom að hún leyndi Alþingi upplýsingum um andstöðu sérfræðinga, sneri hún aftur málsvörn sinni yfir í að hún bæri ábyrgð. En samt ekki. Því það væri engin ábyrgð til að bera, því Hæstiréttur hefði rangt fyrir sér, en ekki hún, enda væri hún sérfræðingur sjálf.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, rökfærði sinn stuðning með eftirfarandi hætti: Í fyrsta lagi hefði hann varað við lögbroti Sigríðar Andersen þegar hann var í stjórnarandstöðu. Í öðru lagi taldi hann að það væri of mikið vantraust meðal almennings gagnvart Alþingi, og í þriðja lagi myndi vantrauststillagan á dómsmálaráðherra sem slík auka vantraust almennings.
Þótt það liggi fyrir að samkvæmt skoðanakönnun vilji 72,5 prósent Íslendinga að Sigríður Andersen segi af sér.
Rökfærsla ábyrgðarleysis
Samandreginn var rökfærsla stuðningshóps dómsmálaráðherra á Alþingi þessi í meginatriðum:
1. Sigríður Andersen ber ábyrgðina (við skipan dómara). 2. Sigríður Andersen braut lög. 3. Skaðinn er skeður. 4. Sigríður Andersen á ekki að axla ábyrgðina. 5. Ef Sigríður yrði látin axla ábyrgðina, myndi ríkisstjórnin falla vegna Sjálfstæðisflokksins, og ríkisstjórnin lætur fleira gott af sér leiða en slæmt.
Vissulega voru blæbrigði í stuðningi við Sigríði. Sigríður sjálf fullyrti til dæmis að hún væri ráðherra sem hefði fylgt „lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara við hinn nýja dómstól“, sem er algerlega andstætt niðurstöðu Hæstaréttar um að hún hafi brotið stjórnsýslulög. Lokaorð hennar voru hins vegar ekki röklegs eðlis, heldur fremur boðun á hefnd gegn þeim sem styddu hana ekki: „Það verður í minnum haft hvernig menn greiða hér atkvæði á eftir,“ sagði hún og gekk úr ræðustóli.
Og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem áður hefur sagt að svo gæti farið að „Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil“ - áður en hún myndaði ríkisstjórn með þeim sem orsakaði vandann - sagði nokkurn veginn að skaðinn yrði hvort sem er ekki bættur og að Sigríður hefði verið kosin aftur á þing eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi gegn henni. Loks sneri hún sér að því að reyna að finna einhver óviðeigandi rök stjórnarliða, eins og til dæmis fulltrúa Flokks fólksins sem talaði gegn ríkisstjórninni í heild vegna sinnuleysis við öryrkja og aldraða, frekar en að rökræða um kjarna málsins.
Hagsmunarök - Tilgangurinn helgar meðalið
Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkonur VG, lýstu því hins vegar hreinskilningslega yfir að þau væru á móti embættisfærslu Sigríðar Andersen, en að þau vildu ekki samþykkja vantraust á hana, vegna þess að þær teldu að þá myndi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur falla.
„Ég var og er ósátt við embættisverk dómsmálaráðherra. Það hefur ekki breyst,“ sagði Lilja Rafney í sinni ræðu. „Það er alveg ljóst að skaðinn er skeður. Það er þegar búið að vinna þessi embættisverk.“ Hún sagði að stuðningur sinn við alla ráðherra byggðust á „þeim mörgu framfaramálum“ sem ríkisstjórnin stæði að.
Eitt helsta málið sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð utan um var að styrkja löggjafarvaldið, Alþingi, andspænis framkvæmdavaldinu.
Á fyrstu síðu stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er kveðið á um það forgangsmál að styrkja sjálfstæði Alþingis: „Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“
Fyrsti kaflinn í stjórnarsáttmálanum, á eftir inngangi, heitir: „Efling Alþingis“
„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.“
„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“
Lilja Rafney og Bjarkey byggðu hins vegar afstöðu sína á gamla flokksræðinu, frekar en á sjálfstæðu Alþingi.
Annað stórt mál ríkisstjórnarinnar er að auka traust á stjórnmálum. „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu,“ segir í stjórnarsáttmálunum, og það var enn frekar reifað þegar stofnaður var starfshópur í desember um hvernig auka mætti traust á stjórnmálum.
Valkreppa Vinstri grænna
Þingmenn VG horfa þannig upp á að þeir eru í mótsagnakenndri stöðu. Sú ríkisstjórn sem þeir vilja verja með því að setja traust sitt á dómsmálaráðherra sem brýtur lög og afvegaleiðir umræðuna á margvíslegan hátt og hótar síðan þingmönnum úr ræðustóli, er einmitt ríkisstjórn sem er mynduð utan um að mynda traust, og lykilforsenda trausts er að axla ábyrgð sína.
Hagsmunamat þingmannanna virtist því vera að til að viðhalda ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, sem vinnur mörg góð verk eins og að tryggja sjálfstæði Alþingis og auka traust, þyrfti að rjúfa sjálfstæði Alþingis og umbera vinnubrögð sem rýra traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Það þyrfti að gera vegna ætlaðrar áherslu Sjálfstæðisflokksins á að umbera slík vinnubrögð. En það er almennt þannig að þegar alvarlegur skaði verður, eins og þegar grafið er undan heilu dómsstigi til að ástunda klíkuskap og flokksræði, er skaðinn skeður og of seint að afturkalla hann. Það breytir því ekki að sá sem ber ábyrgð á skaðanum þarf að axla hana, til þess að traust myndist um að frekari skaðsemi verði ekki ástunduð.
Kannski er merkilegt að í þessum efnum hafi þeir tveir þingmenn VG sem studdu ekki ríkisstjórnina, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fylgt stjórnarsáttmálanum betur en þingmenn ríkisstjórnarinnar. Í fréttum RÚV í kvöld tók formaðurinn Katrín svo upp andstöðu við sjálfstæði þingsins og sjálfstæða sannfæringu þingmanna, þegar hún gagnrýndi Rósu Björk og Andrés Inga fyrir að fylgja ekki þeirri flokkslínu sem hún hafði sett, með því að greiða atkvæði með vantrausti á einn ráðherra.
„Það eru mér vonbrigði að þau hafi valið að gera það í ljósi þess að á sínum tíma, þegar við fórum inn í ríkisstjórnarsamstarfið, að þá bókaði þingflokkur Vinstri grænna að hann lýsti sig fylgjandi því að fylgja félagslegri niðurstöðu flokksráðsfundar þar sem við ákváðum að fara inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf,“ sagði hún.
Vinstri grænir hafa nú misst sakleysið á þann hátt að þau eru nú orðin samsek í að beita valdi sínu andstætt almannahagsmunum til þess að viðhalda völdum sínum, í þeirri gamalkunnu trú að það sé mikilvægara að þeir haldi völdum en að hið rétta sé gert hverju sinni. Kjörnir fulltrúar eru hins vegar dæmdir af því sem þeir gera, ekki bara því sem þeir segja, og samfélagið mótast af fordæmum, en ekki óframfylgdri stefnu.
Athugasemdir