Þingmenn sem keyra meira en 15 þúsund kílómetra árlega á eigin bifreið, þvert á reglur um þingfararkostnað, hafa ítrekað verið beðnir um að fylgja reglunum og skipta yfir á bílaleigubíl. Nokkrir hafa kosið að gera það ekki og borið við að „þægilegra“ sé að nota eigin bíl. Þetta kemur fram í greinargerð skrifstofu Alþingis um ferðakostnað þingmanna sem birtist á þingvefnum í dag.
Skrifstofa Alþingis reiknaði út og komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að hagkvæmara væri fyrir Alþingi að þingmenn sem ækju meira en 15 þúsund kílómetra á ári notuðust við bílaleigubíl. Í kjölfarið, í október 2016, var slíkt kílómetramark sett inn í reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað og þingmönnum kynnt sérstaklega um breytinguna. „Var það kynnt þingmönnum, sérstaklega nýjum þingmönnum, eftir kosningarnar 2016 og enn fremur eftir kosningarnar 2017, með tölvupósti til þeirra þingmanna sem það varðaði,“ segir í greinargerð þingskrifstofunnar.
„Alveg frá upphafi kjörtímabils 2013 hefur verið haft samband við þingmenn sem aka mikið og þeir hvattir til að nota fremur bílaleigubíla en eigin bifreið ef hagkvæmara hefur þótt. Sumir hafa brugðist við því og orðið við ábendingum en aðrir ekki. Hefur því verið borið við að miklu þægilegra væri fyrir þingmenn að nota eigin bíl; oft færi saman akstur í þágu þingstarfsins og einkaakstur, bílaleigubílar væru ekki nógu stórir og öflugir til vetrarferða og afnotaréttur að bílaleigubílum væri ekki nægilega skýr (einkaafnot, tryggingar o.s.frv.).“
Þá kemur fram að þingmenn sem í hlut eiga hafi rætt við formenn þingflokka og forseta og óskað eftir því að breyttri framkvæmd yrði frestað meðan farið yrði yfir athugasemdir þeirra. Enn fremur hafi því verið haldið fram að breytingin hafi ekki verið nægilega vel kynnt né þeim gefinn tími til að gera aðrar ráðstafanir.
Í greinargerðinni kemur fram að skrifstofa Alþingis hafi ekki talið sig hafa heimild til að meta ferðatilefni hverju sinni og „úrskurða um það“. Þannig hafi t.d. ekki verið krafist staðfestingar á því hvort tilteknir fundir hafi átt sér stað heldur verið treyst á heiðarleika þingmanna. „Engin formleg athugasemd hefur verið gerð af hálfu skrifstofunnar um tilefnislausa reikninga og skrifstofan hefur engin gögn í sínum höndum sem benda til þess að þingmenn hafi vitandi vits eða af ásetningi reynt að krefja Alþingi um endurgreiðslur umfram það sem þeir áttu rétt á. Skrifstofan hefur heldur aldrei greitt reikning eða endurgreitt reikning sem hún hefur talið sig vita að væri tilefnislaus. Væri eitthvað athugavert við reikning og tilefni hans hefur reikningurinn verið endursendur með ósk um frekari skýringar o.s.frv,“ segir í greinargerðinni. „Skrifstofan hefur oft átt samtöl við þingmenn um eitt og annað varðandi greiðslur til þeirra, eins og áður er rakið, t.a.m. um að akstur sé mikill, símreikningur hár o.s.frv. Slík matsatriði hljóta alltaf að koma upp í umfangsmiklum rekstri. Það hafa aðeins verið ábendingar af hálfu skrifstofunnar og þeim hafa þingmenn oftast tekið vel og brugðist við þeim.“
Athugasemdir