Í Morgunblaðinu þann 19. febrúar birtist grein um framboð, sem komið hefur fram gegn stjórn Eflingar, eftir talsmann stjórnarinnar. Formannsefni mótframboðsins heitir Sólveig Anna Jónsdóttir. Hún hefur verið mjög áberandi í fjölmiðlum síðan hún kom fram á sjónarsviðið í Silfri Egils í lok janúar.
Óhætt er að segja að Sólveig Anna hafi slegið í gegn með skýrum og markvissum málflutningi um nauðsyn þess að taka upp nýjar baráttuaðferðir í verkalýðsbaráttunni, skerpa á stéttabaráttunni og grípa til beittra vopna sem duga og hafa dugað verkafólki best í baráttu við alræði kapítalismans. Beittasta vopnið er einmitt sósíalisminn, hugmyndafræði sem verkalýðsstéttin fóstraði og skapaði sjálf. Mestur og bestur árangur í verkalýðsbaráttunni hefur náðst þegar sósíalistahreyfingin hefur verið öflugust innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar hafa verkföll gegnt lykilhlutverki, verkföll eru öflugasta tækið sem verkalýðsstéttin á í vopnabúri sínu. Í Morgunblaðsgreininni er ákveðinn hneykslunartónn gagnvart verkföllum (sbr. fyrirsögnina, sem er bein tilvitnun í aðaltexta greinarinnar), sem hlýtur að vekja vantraust - er forysta Eflingar virkilega í höndum fólks sem lítur svo á að verkföll séu af hinu illa?
Greinin í Morgunblaðinu þann 19. febrúar er um framboðið sem Sólveig Anna er í forystu fyrir, en það gæti auðveldlega farið framhjá fólki því nafn Sólveigar Önnu er hvergi nefnt í greininni. Í stað þess er því haldið fram að framboðið sé á vegum Gunnars Smára Egilssonar blaðamanns sem skilið hafi eftir sig slóð af vondum málum gagnvart launafólki, og Sósíalistaflokksins, róttækum flokki sem fylgi stefnu sem best eigi heima á öskuhaugum sögunnar. Það verður því að undirstrika að greinin er um þetta framboð, framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur og félaga hennar. Þau eru átta talsins, og þar af eru þrír fulltrúar erlends verkafólks sem hér vinnur. Það fólk er nær helmingur félaga Eflingar, en á lista uppstillingarnefndar stjórnarinnar er enginn fulltrúi þess.
„Verkalýðsfélag eins og Efling verður að njóta trausts fólks af erlendum uppruna sem vinnur flest erfiðustu störfin í samfélagi okkar.“
Í áðurnefndri ritsmíð er á ný lögð fram kenning sem Sigurður Bessason fráfarandi formaður Eflingar kom fyrstur fram með: Að Sólveig Anna Jónsdóttir sé strengjabrúða karlmanns. Þegar mótframboðið kom fram lýsti Sigurður Bessason þeirri skoðun sinni að Sólveig Anna væri strengjabrúða Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR. Nýjungin er núna sú að Sólveig Anna á að vera strengjabrúða Gunnars Smára Egilssonar.
Greinin er skrifuð af aðila sem er svo sannarlega strengjabrúða auðvaldsins, fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Árið 1991 komst hér á landi til valda maður sem slær Gunnar Smára út og vel það þegar litið er til vondra mála gagnvart launafólki. Þessi maður gekk erinda auðvaldsins af þvílíku offorsi og af svo blindri ofsatrú á yfirburði markaðarins til að leysa öll mál að árið 2008 varð hér mesta hrun sem orðið hefur á byggðu bóli. Samfélagið varð fyrir gríðarlegu áfalli, höggi sem leiddi til þess að fjöldi fólks missti allar eigur sínar, lífskjör hrundu og margir sáu þann kost vænstan að flýja land til að bjarga sér og fjölskyldum sínum úr vonlausri aðstöðu. Þetta hrun var og er enn erfiðasta viðfangsefni Íslendinga. Hvernig á að koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur, að blint ofstæki af þessu tagi fái að leika lausum hala, að svona menn fái að leika lausum hala, að strengjabrúðurnar átti sig á veruleikanum? Það er mikilvægasta verkefni sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.
Stjórnmál og verkalýðsfélög
Greinarhöfundur heldur því fram að stjórnmál komi hvergi nærri starfi Eflingar. Það eigi þátt í því mikla og vaxandi trausti sem félagið njóti. Hér nefnir greinarhöfundur traust. Meðal hverra nýtur félagið mikils og vaxandi trausts? Varla neinna stjórnmálaflokka, því þeir koma hvergi nærri starfi Eflingar. Þeir og athafnir þeirra í ríkisstjórn og sveitarfélögum hafa engin áhrif á kjör og afkomu félaga Eflingar - eða hvað? Varla atvinnurekenda, því verkalýðsfélög eiga jú ekki að njóta traust atvinnurekenda - eða hvað?
Hvar eiga verkalýðsfélög að njóta trausts? Það er spurning sem greinarhöfundur varpar fram, og Sólveig Anna hefur svarað þeirri spurningu mjög skýrt. Þau verða að njóta trausts umbjóðenda sinna, verkalýðsins sem myndar félagið og greiðir til þess gjöld. Verkalýðsfélag eins og Efling verður að njóta trausts verkakvenna sem er stór hluti félaga Eflingar, og ekki virðist núverandi forysta átta sig á því. Hún sýnir botnlausa og takmarkalausa kvenfyrirlitningu sem allir vita á heima á öskuhaugum sögunnar. Verkalýðsfélag eins og Efling verður að njóta trausts fólks af erlendum uppruna sem vinnur flest erfiðustu störfin í samfélagi okkar, í umönnun barna, gamals fólks og sjúklinga, í byggingarvinnu, hreingerningum og fiskvinnslu. Uppstillingarnefnd núverandi forystu hefur ekki séð ástæðu til að tilnefna einn einasta fulltrúa þessa fólk til stjórnarsetu.
„Stórsigrum auðstéttarinnar í baráttu hennar við verkalýðsstéttina á undanförnum áratugum verður að svara af fullum krafti og öllu afli.“
Með því að banna stjórnmál á vettvangi verkalýðsfélaga færði forysta verkalýðshreyfingarinnar auðvaldinu á sínum tíma stórsigur á silfurfati: Beittustu vopn verkalýðshreyfingarinnar voru slegin úr höndum hennar, hugmyndafræði sósíalismans og aðferðir og kenningar and-kapítalískrar baráttu. Sólveig Anna hefur svo sannarlega mætt á fundi þar sem þessi vopn hafa verið tekin upp á ný og brýnd. Hún hefur verið virk í þeirri deild verkalýðshreyfingarinnar sem hefur hagsmuni stéttarinnar sjálfrar að leiðarljósi. Á þeim fundum hefur enginn sést úr núverandi forystu Eflingar.
Verkalýðshreyfingin er orðið innatómt skrifstofubákn sem almenningur hefur helst kynni af þegar panta skal orlofshús. Tómt bákn fullt af draugum. Það er kominn tími til að fylla það hús, þau samtök, heimkynni verkalýðsins lífi, færa raunverulegum fulltrúum verkalýðs umboð til að beita afli hreyfingarinnar á fullu. Stórsigrum auðstéttarinnar í baráttu hennar við verkalýðsstéttina á undanförnum áratugum verður að svara af fullum krafti og öllu afli, annars er bara von á endurteknu efni, hruni og þjóðfélagslegum stórslysum af því tagi sem Íslendingar máttu þola 2008.
Athugasemdir