Nokkrir hlutir eru óeftirgefanlegir í samfélaginu sem við mótum sameiginlega. Einn er að við beitum okkur til að virða jafnan rétt kynjanna, óháð því hvernig staða kynjanna er annars staðar í heiminum. Annað er að við megum tjá okkur, jafnvel þótt tjáning geti kostað þig ofbeldi annars staðar í heiminum. Það þriðja er að við verndum börn fyrir skaða, þar með talið óþörfum skurðaðgerðum í trúarlegum tilgangi.
Fjöldi trúarleiðtoga víða um heim hefur fordæmt frumvarp á Alþingi sem ætlað er að gera refsivert að umskera sveinbörn á kynfærunum án læknisfræðilegra ástæðna á Íslandi.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands og æðsti yfirmaður þjóðkirkjunnar, hefur líka varað við frumvarpinu á þeim grundvelli að það vinni gegn „rétti barna til að fá að alast upp við trúarlegar og menningarlegar grundvallarhefðir foreldra sinna og alls síns fólks, sem getur mótað sjálfsmynd þeirra“. Hún segir að „hættan blasi við að Gyðingdómur og Islam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir“. Agnes leggst ekki gegn frumvarpinu að fullu en varar eindregið við því.
Hildur Eir Bolladóttir prestur segir að við séum „ekkert skárri en Trump“ ef við ræðum málið ekki út frá „því sameiginlega alheimsmarkmiði að skapa sanngirni og frið í samvistum ólíkra þjóða“. Hún segir að „athöfnin [hafi ekki verið] fundin upp til að refsa börnum eða pína þau heldur tengist hún sáttmálshugmyndum frá tímum Abrahams.“
Bann við umskurði snýst um ósættanleg grundvallarátök milli trúarbragða og síðan grundvallarreglna sem framsækið samfélag setur sér. Í orðum sínum vilja prestarnir beina athyglinni að þeim hagsmunum sem tengjast framgangi skipulagðra trúarbragða, þegar frumvarpið beinist að beinni vernd ungbarna innan íslensks samfélags.
Umskerið eða verið upprættir
Samkvæmt trúarriti Gyðinga, og reyndar þjóðkirkjunnar, verður þjóð Abrahams að umskera drengina sína, og keypta þræla, til þess að viðhalda sáttmálanum við Guð. Ellegar blasi við þeim „uppræting“ úr þjóðinni: „Guð sagði við Abraham: „Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið.“
Guð má vita hvað felst í upprætingu úr þjóðinni, en enginn verður upprættur með þeim hætti úr fjölmenningarsamfélagi.
Menningarleg afstæðishyggja segir okkur að sumt sem er rangt í okkar augum geti verið rétt í öðrum samfélögum. Í dag lifum við í fjölmenningarsamfélagi, og ef sjónarhóll menningarlegrar afstæðishyggju er tekinn um leið getur eitthvað verið bæði rétt og rangt. Þannig er umskurður drengja rangur gagnvart miklum meirihluta þjóðarinnar, en lítill minnihluti hennar telur hann réttan.
Frumvarpið á Alþingi um bann við umskurði er úrskurður um að eitthvað sé slíkt grundvallaratriði að það beri að banna með formlegum reglum, vegna þeirra röksemda að það gangi gegn sameiginlegri grundvallarskyldu okkar samfélags að vernda ung börn.
Breyting á líkama barna
Menningarlegar ástæður hafa oft hnigið til þess að breyta líkömum barna eða sérstakra hópa. Í mörgum menningarsamfélögum fornaldar og í miðaldasamfélögum Suður-Ameríku tíðkaðist að þrengja að höfuðkúpu ungbarna til þess að breyta lögun hennar. Gera má ráð fyrir því að viðkomandi foreldrar hafi haft sínar ástæður.
Í Kína þótti rétt og eftirsóknarvert að umbreyta fótum kvenna með því að binda þá til að minnka þá og hækka í fagurfræðilegum tilgangi. Óbundnir kvenmannsfætur í fullri stærð töldust of grófgerðir. Afleiðingin var afmyndun fótanna og skert hreyfigeta kvenna. Orsökin var tíska, sem virðist hafa byrjað með goðsögn af kærustu keisara á 11. öld.
Og víða í heiminum í dag eru læknar fengnir til að skera forhúðina af ungum sveinbörnum. Tilgangurinn er ekki aðeins trúarlegur, heldur er hátt í 80 prósent bandarískra karlmanna umskorinn. Í hinum engilsaxneska heimi náði umskurður ekki fótfestu fyrr en á 19. öld, meðal annars til að hindra sjálfsfróun, sem var talin orsaka ýmis líkamleg eða geðræn veikindi, eins og lömun, flogaveiki, geðklofa og berkla.
Á Englandi hrundi tíðni umskurðar þegar tekið var upp opinbert heilbrigðiskerfi sem niðurgreiddi ekki umskurð. Heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu og Kanada mæla ekki með umskurði, en bandarísk yfirvöld segja kostina fleiri en gallana. Samtök bandarískra barnalækna mæla hins vegar með umskurði, og því að opinberar heilbrigðistryggingar niðurgreiði aðgerðirnar, eins og víðar er gert.
Í Bandaríkjunum eru ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda þess efnis að ábatinn af umskurði sé meiri en skaðinn. Vísað er í að HIV-veiran smiti síður umskorna og að tíðni einnar sjaldgæfrar tegundar krabbameins sé lægri meðal umskorinna.
En áherslur vísindalegrar þekkingar verða ekki til í einangruðum, vísindalega stýrðum aðstæðum. Hún er í sjálfri sér ekki afstæð, en birtingarmyndir hennar geta verið það. Hagsmunir og félagslegar hefðir hafa áhrif á þekkingu og miðlun hennar.
Þannig segir sína sögu að 70 prósent umskorinna lækna í Bandaríkjunum styðja umskurð, en 70 prósent lækna sem ekki eru umskornir eru andvígir umskurði.
Umskurður tíðkast hins vegar af menningarlegum og trúarlegum ástæðum víða um heim, án þess að bandarísk læknavísindi hafi komið nálægt.
Skaði gegn ungbörnum
Sú stétt sem ætti að sjá um að umskera barnunga drengi á Íslandi eru læknar. Á fimmta hundrað íslenskra lækna hefur sent frá sér yfirlýsingu með stuðningi við bannfrumvarpið gegn umskurði. „Íslenskir læknar hafa margir unnið í Evrópu, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum,“ sagði í kynningu á yfirlýsingunni. „Þónokkrir hafa tekið á móti ungum drengjum með fylgikvilla eftir umskurð á borð við sýkingar, blæðingar eða vefjadrep. Jafnvel þannig ástatt með að tvísýnt væri um horfur. Aðrir hafa lýst upplifun sinni af sársauka nýbura þar sem afar skyn-næmur vefur er skorinn burt án deyfingar. Hafa margir neitað að taka þátt í verknaðinum samvisku sinnar vegna, við mismikinn skilning.“
Upplýsingagjöf um áhrif umskurðar á heilsu er afar valkvæð og misvísandi. Hins vegar er vitað að umskurður veldur verulegum sársauka. Greinst hefur breyting á hegðun ungbarna og umskurður hefur í för með sér tengslaröskun milli foreldra og ungbarna. Sýnt hefur verið fram á að umskurður getur framkallað einkenni áfallastreituröskunar hjá sveinbörnum. Fjöldirannsókna hefur síðan staðfest fylgni milli áfalla í æsku við árásarhneigð og annan tilfinninga- og geðvanda á fullorðinsárum.
Á undanförnum árum hefur orðið vakning í mikilvægi lífsreynslu ungbarna við foreldra á fyrstu aldursárum sem mótandi áhrif á virkni heilans. Í ágúst 2016 sendi hópur sérfræðinga öllum þingmönnum eftirfarandi ákall, þar sem þeir voru hvattir til þess að tryggja öllum börnum hlýju og öruggar aðstæður á fyrsta 1001 degi lífsins með inngripi ríkisins og fjárfestingu til hjálpar foreldrum. Skortur á tengslum getur haft áhrif á þroska barna og „óafturkræfar breytingar á heilastarfsemi“.
Líkleg áhrif af áfalli í frumbernsku vegna umskurðar aðlagi virkni heilans að frekari sársauka og „herði“ drengina upp. Í samfélögum múslima, þar sem umskurður er oft seint í bernsku, er gjarnan félagslegt tabú að kvarta undan umskurðinum. Þetta býr því börn og heila barna undir að mæta hörðum heimi, út frá gildismati og lífeðlissálfræðilegum áhrifum. Þannig eru bæði sálfræðileg, félagsleg og líkamleg áhrif af umskurði, sem mörg hver eru ekki fyllilega rannsökuð, en flest bendir til skaðsemi og bæði umboðsmaður barna á Íslandi og í Noregi vilja innleiða bann við aðgerðunum.
Frelsið til að umskera börn sín
Trúfrelsi er frelsið til að aðhyllast þá trú sem maður kýs, en ekki frelsið til að láta skera forhúðina af sveinbörnum. Þar er um að ræða frelsi til verknaðar gagnvart öðrum, sambærilegt við aðra verknaði.
Kúgun meirihluta á minnihluta er hins vegar raunveruleg hætta í öllum samfélögum. Ef við föllumst á menningarlegt afstæði, að umskurður sveinbarna sé réttur í öðru samfélagi en rangur hjá okkur, losar það okkur ekki undan skyldum fjölmenningarsamfélags að umbera og virða mismunandi hefðir mismunandi hópa samfélagsins.
Fjölmenningarsamfélag skyldar okkur þó ekki til að leyfa hvað sem fyrirfinnst í mismunandi menningarheimum mannkyns. Við hljótum að vega og meta sameiginlega hvar algild mörk liggja, eða í það minnsta okkar menningarlega afstæðu mörk. Við höfum sem samfélag heimild til að setja algildar reglur sem eiga um alla menningarkima, jafnvel þótt þær kunni að brjóta gegn viðmiðum eða hefðum einhverra þeirra. Við erum nú þegar að brjóta gegn ýmsum trúarlegum boðum með samfélagsreglum okkar og skorti á reglum. Sádi-Arabía hefur bannað konum að keyra, bann sem boðað er að verði loksins aflétt í júní næstkomandi, og víða er samkynhneigð bönnuð af trúarlegum ástæðum.
Bönnuð tjáning
Þverstæðan er hvort frjálslynt fjölmenningarsamfélag geti bannað menningarlega breytni. Augljóslega bönnum við morð, heiðursmorð sem önnur. Við bönnum líka mismunun. Við stæðum til dæmis gegn almennu valdboði íslamskri alræðishyggju, en bönnum ekki búrkur.
Að því sögðu höfum við ýmiss konar fornfáleg lög sem svipta okkur frelsi í andstöðu við reglur frjálslynds lýðræðisríkis. Fram til 2015 var ólöglegt að lasta Guð, þar til Píratar fengu samþykkt frumvarp sitt um afnám refsinga við guðlasti. Þar til í fyrra mátti ekki nefna glæpi þeirra sem höfðu fengið uppreist æru. Við megum enn ekki „smána“ erlenda þjóðhöfðingja, ríki eða fána með skammaryrðum. Það varðar fangelsi allt að sex árum. Við megum gera grín að trúarbrögðum, jafnvel teikna myndir af Múhammeð spámanni, en samtímasagan geymir dæmi um hvernig harðtrúaðir íslamistar beita ofbeldi til að láta tjáningarhömlur sínar ná yfir vestræn samfélög.
Algildi barnaverndar
Bann gegn umskurði beinist ekki gegn einstaklingum eða einstökum trúarbrögðum heldur athæfi, sem er ekki eingöngu bundið við trúarbrögð, og áhrifum þess á börn. Bannið er um leið yfirlýsing um sjálfræði samfélagsins til að setja sér reglur.
Með því tökum við það skref að setja fjölmenningarsamfélaginu algild mörk. Þau mörk byggja á þeirri sameiginlegu ákvörðun að fallast á að eftirfarandi séu algild sannindi: Að mikilvægasta verkefni sérhvers samfélags er að vernda börn.
Athugasemdir