Tommy Robinson, breskur þjóðernissinni og hægriöfgamaður, boðar komu sína til Íslands á Twitter. „Mér var boðið á viðburð á Íslandi næsta sumar. Get ekki beðið, enda hefur mig alltaf langað að heimsækja landið,“ skrifar hann.
Tommy hefur gegnt forystuhlutverki í þjóðernissamtökunum The English Defence League, var um tíma varaformaður Breska frelsisflokksins og nýtur mikillar virðingar meðal rasista, múslimahatara og hægriróttæklinga í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann hefur setið í fangelsi fyrir fjársvik og að villa á sér heimildir en jafnframt verið dæmdur til að sinna samfélagsþjónustu vegna ógnandi hegðunar eftir íþróttaviðburð í heimabæ sínum, Luton. Þar rekur Tommy ljósabekkjastofu.
Viðar Þorsteinsson, heimspekingur sem hefur tekið þátt í stofnun Sósíalistaflokksins, tjáir sig um komu Tommy Robinson á Facebook og hvetur fólk til að koma í veg fyrir að hann fái að láta ljós sitt skína á Íslandi.
Hann segir að samtök um ofbeldi gegn minnihlutahópum og brot á mannréttindum þeirra geti ekki sjálf ætlast til þess að fá að njóta mannréttinda á borð við funda- og tjáningarfrelsi. „Þegar þau ógna tilveru saklauss fólks með opinberum viðburðum í almannarýminu þá er það skylda allra sem vilja standa vörð um lýðræði, mannréttindi og tilvistaröryggi minnihlutahópa að stöðva slíkt með öllum ráðum. Tommy Robinson getur því átt von á mótstöðu ætli hann eða íslensk nýnasistsamtök að efna til funda hér á landi,“ skrifar hann.
Aðdáendum Tommy Robinson líst almennt vel á fyrirhugaða Íslandsför hans, en sumir hafa áhyggjur. „Þarna var eitrað fyrir Robert Spencer. Farðu varlega,“ segir vinkona Tommys og vísar þar til þekkts múslimaandstæðings sem kom til Íslands síðasta sumar og sagði farir sínar ekki sléttar. Einn af skoðanabræðrum Tommys á Twitter býðst til að útvega honum lið vaskra manna, eins konar lífvarðasveit, sem geti fylgt honum um Ísland.
Athugasemdir