Guðrún Kvaran, formaður íslenskrar málnefndar, segir ótækt að skýrsla sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor hefur unnið að fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið frá 2014 sé skrifuð á ensku. Slíkt gangi í berhögg við 8. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, en þar er skýrt kveðið á um að íslenska sé mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga.
Mbl.is greindi frá því í dag að birtingu Hannesarskýrslunnar hefði enn einu sinni verið frestað, en samkvæmt samningi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands árið 2014 átti skýrslan að koma út árið 2015. Hannes fær 10 milljónir frá hinu opinbera fyrir skýrslugerðina, en rannsókn hans lýtur að „erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins“.
Hannes var einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun og hefur fullyrt að tvær meginskýringarnar á íslenska bankahruninu séu þær að Bandaríkjamenn neituðu Íslendingum um hjálp á ögurstundu og að „Bretar stuðluðu beinlínis að falli bankanna“. Þessi söguskýring er gjörólík þeim niðurstöðum sem birtust í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir bankahrunsins árið 2010, en þar er einkum fundið að viðskiptaháttum og örum útlánavexti íslensku bankanna og veiku eftirliti íslenskra stjórnvalda með fjármálakerfinu.
Skýrsla Hannesar Hólmsteins er um 315 blaðsíður að lengd og skrifuð á ensku.
Guðrún Kvaran, formaður íslenskrar málnefndar, bendir á að íslenska er mál stjórnvalda samkvæmt lögum. Það gildi um skýrslur sem ritaðar eru fyrir ráðuneyti. „Skýrsla á ensku er því ótæk. Hún á að vera skrifuð á íslensku en þýdd yfir á ensku ef þörf krefur,“ segir hún í samtali við Stundina.
Þá vísar Guðrún til málstefnu Stjórnarráðs Íslands, en þar kemur fram að allt útgefið efni á vegum stjórnarráðsins skuli vera á íslensku. Þetta eigi meðal annars við um skýrslur, greinar, fréttir og fréttatilkynningar sem varða mikilvæga hagsmuni Íslands. Forsætisráðherra ber ábyrgð á mótun málstefnunnar samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands og fer forsætisráðuneytið með mál er varða málstefnuna samkvæmt forsetaúrskurði.
Athugasemdir