Eitt af því sem Metoo-byltingin hefur haft í för með sér alþjóðlega er opinberun á nokkrum tilfellum sem sýna hversu erfitt getur verið fyrir stofnanir og fyrirtæki að taka á ásökunum um kynferðislega áreitni innan þeirra.
Ég er ekki í nokkrum vafa um það að Metoo-byltingin mun leiða til breytinga á því hvernig stofnanir og fyrirtæki taka á slíkum málum þannig að ákvarðanir þeirra og niðurstöður verði gagnsærri og frekar hafnar yfir eiginhagsmuni og vafa.
Versta dæmið er auðvitað hvernig fyrirtæki tengd bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein þögguðu niður umræðu um kynferðislega áreitni hans í áraraðir með því að borga konunum sem um ræddi háar fjárhæðir og láta þær undirrita samkomulag um þögn.
En svo eru flóknari tilfelli sem eru ekki eins svart-hvít þar sem viðbrögð fyrirtækjanna eða stofnananna eru að hluta til rétt en kannski að hluta til röng líka.
Í Stundinni er fjallað um mál manns sem ráðinn var sem forstjóri ríkisstofnunar árið 2015 eftir að hafa látið af störfum í banka vegna ásakana um kynferðislega áreitni árið 2011. Um leið og maðurinn var ásakaður um áreitnina fór hann í leyfi frá störfum hjá bankanum og rannsóknarfyrirtæki var fengið til að skoða mál hans. Segja má að bankinn hafi því brugðist skjótt og rétt við. Þegar maðurinn ákvað hins vegar að hætta í bankanum má segja að fjarað hafi undan viðleitninni til að skoða mál hans áfram, jafnvel þótt rannsóknarfyrirtækið hafi fengið vitnisburði inn á borð til sín um frekari meinta áreitni hans gegn konum.
Hálfkaraðar niðurstöður
Rannsóknin á máli mannsins varð í reynd hálfkák, drög að rannsókn með engri eiginlegri niðurstöðu, miðað við þau svör sem berast, þar sem ekki var talið að leiða þyrfti hana til lykta eða komast að öllum sannleikanum þar sem það þjónaði ekki hagsmunum þeirrar stofnunar sem átti í hlut að reyna að fletja málið út. Fyrir vikið lágu vitnisburðir þeirra kvenna sem leituðu til rannsóknarfyrirtækisins í þagnargildi þrátt fyrir að yfirlýst markmið þeirra þolenda sem setja sig í samband við slík fyrirtæki sé að leggja til vitnisburði sem nýtast í rannsóknartilgangi.
Svipuð staða er nú upp á teningnum nú hjá Sósíaldemókrataflokknum sænska þar sem einn af ráðamönnum flokksins á þingi hefur verið vændur um kynferðislega áreitni í nokkrum tilfellum, fyrst fyrir áratug síðan. Flokkurinn boðaði rannsókn á máli hans fyrir tíu árum og opnaði tölvupóstfang þar sem konur gátu sent inn vitnisburði um meinta óeðlilega framkomu þingmannsins. Flokkurinn ákvað hins vegar að taka ekki mark á vitnisburðum frá konum sem vildu njóta nafnleyndar.
Rannsókn flokksins á máli þingmannsins fjaraði út og umræðurnar um meinta kynferðislega áreitni hans dóu og voru ekki endurvaktar fyrrr en núna, í kjölfar Metoo, og hefur flokkurinn nú fengið utanaðkomandi, óháða lögmannsstofu til að rannsaka ásakanirnar gegn þingmanninum. Sósíaldemókrataflokkurinn hefur komist í talsverðan bobba út af þessu máli og hefur verið vændur um þöggun og að kóa með kynbundnu ofbeldi vegna þess hvernig tekið hefur verið á máli þingmannsins.
Rannsókn þarf að eiga sér stað
Á sama tíma virðist einnig vera ljóst að ekki er hægt að refsa fólki fyrir meint siða- eða lögbrot án þess að kannað sé hvort ásakanirnar eigi sér stoð í raunveruleikanum. Íslenski bankinn sem um ræðir hér hafði vit á því að setja strax af stað rannsókn á máli starfsmanns síns þegar það kom upp en hann hefði hugsanlega átt að fylgja þeirri rannsókn betur eftir og ljúka henni og greina jafnvel frá niðurstöðunni opinberlega þar sem mál mannsins var fréttaefni á sínum tíma. Bankinn gat svo ekki veitt Íbúðalánasjóði, núverandi vinnuveitanda mannsins, fullar upplýsingar um eðli rannsóknarinnar gegn honum á sínum tíma þegar ráðningarferlið á honum stóð yfir þar sem hún var bara hálfköruð og bankinn vissi í raun ekki allt um rannsóknina.
Metoo-byltingin á sér margar hliðar og eru þeir persónulegu harmleikir, sjálft kynferðisofbeldið eða kynferðislega áreitnin, bara ein hlið á henni.
Önnur hlið snýst um viðbrögð stofnana samfélagsins, hagsmunaaðilana sem um ræðir í einstaka málum, og hvernig þær bregðast við til að reyna að mýkja lendingu sína og minnka orðsporsáhættuna sem fylgir því að vera vettvangur slíkra kynferðisbrota.
Athugasemdir