Árið er 1984. Ég er í Bandaríkjunum. Wham-æðið hefur náð hámarki heima á Íslandi og annars staðar í Evrópu, en er rétt að byrja í Ameríku.
Á Miami er allt að verða vitlaust. Hvert sem þú kemur er verið að spila Wake Me Up Before You Go-Go og það er ekki laust við að heimsborgarinn frá Íslandi ranghvolfi stundum augunum yfir því að þurfa að hlusta á sama lag á „repeat“ í tveimur heimsálfum. En það var bara sýndarmennska. Ég elskaði lagið, Wham og mér fannst George Michael fallegasti maður í heimi. Ég hefði líklega lagt töluvert á mig til að sjá hann í eigin persónu.
En ég þurfti ekkert að leggja á mig. Ég hitti hann alveg óvænt, en í stað þess að fleygja mér í fangið á honum og smella á hann blautum kossi, eins og mig hafði dreymt um að gera, lét ég hann heyra það hvað hann væri hallærislegur fyrir að mæta á hvítum T-bol á tónleika.
„He's rather white trashy“
Ég fór sem sagt á jólatónleika, þar sem George Michael kom fram ásamt Dolly Parton, Kenny Rogers og fleiri stjörnum. Öll umgjörð tónleikanna var í fínni kantinum og í hléi fóru allir á barinn, fengu kampavín og fingramat.
Íslenski heimsborgarinn sem ég þóttist vera þurfti eitthvað að tjá sig um það við enskumælandi vini sína hvað Ameríkanar ættu það til að vera illa til hafðir þegar þeir færu á fína viðburði. Sjálf var ég klædd í kjól, á meðan sumir voru bara í gallabuxum og strigaskóm. „Sko, sjáið bara þennan,“ sagði ég og benti á mann sem sneri öxlinni að mér. Ég sá ekkert nema öxlina, hvítan stuttermabolinn sem var skítugur og tættur. Snjóþvegnar gallabuxurnar þótti mér frekar púkó og strigaskórnir óreimaðir. „He's rather white trashy,“ sagði ég hátt og snjallt.
Og George Michael sneri sér að mér og blikkaði mig.
Athugasemdir