Þingmenn stjórnarmeirihlutans felldu breytingartillögu stjórnarandstöðunnar í gærkvöldi um að gert yrði ráð fyrir afnámi virðisaukaskatts af bókum í fjárlögum ársins 2018.
Þingmenn allra flokka á Alþingi lögðu fram sameiginlegt frumvarp um afnám skattsins þann 26. september síðastliðinn, en fyrsti flutningsmaður þess var Lilja Alfreðsdóttir, sem nú gegnir embætti mennta- og menningarmálaráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður bókaskatturinn afnuminn á kjörtímabilinu, en sú ráðstöfun kemur ekki til framkvæmda á komandi fjárlagaári. Miðað við tekjur af virðisaukaskatti af bókum undanfarin ár má ætla að afnám hans kosti ríkissjóð um 350 milljónir króna á ársgrundvelli. Þetta er álíka há fjárhæð og meirihluti fjárlaganefndar vill að útgjöld hins opinbera vegna styrkja til stjórnmálaflokka verði hækkuð um strax á næsta ári í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn tillögu Ágústar Ólafs Ágústssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, um afnám virðisaukaskatts af bókum í gærkvöldi.
Lilja Alfreðsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir voru, fyrir fáeinum vikum, á meðal flutningsmanna frumvarps um að bókaskatturinn yrði afnuminn strax um áramótin, en greiddu öll atkvæði gegn afnámi bókaskattsins í gærkvöldi.
Þá greiddi einn Pírati, Jón Þór Ólafsson, einnig atkvæði gegn tillögunni en aðrir þingmenn Pírata og þingmenn Flokks fólksins, Miðflokksins og Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með henni.
Athugasemdir