Fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi nema Pírata og Flokks fólksins hafa farið fram á það við fjárlaganefnd að framlög hins opinbera til til stjórnmálaflokka verði aukin um 362 milljónir á næsta ári til viðbótar því sem kveðið er á um í fjárlagafrumvarpi ársins 2018.
Fjárhæðin er á við helming þess sem Landspítalinn telur sig vanta á árinu 2018 til að geta haldið sjó í rekstrinum og veitt sjúklingum viðeigandi þjónustu.
Bent er á það í sameiginlegu erindi til fjárlaganefndar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Viðreisnar að framlög til stjórnmálaflokka hafa lækkað umtalsvert að raunvirði frá því að lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda tóku gildi árið 2007.
„Þetta hefur haft mikil áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka til hins verra. Þess vegna erum við undirrituð sammála um nauðsyn þess að leiðrétta framlögin. Að óbreyttu er ekki hægt að uppfylla markmið laganna um að ,,auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið. Því er hér farið fram á leiðréttingu samkvæmt vísitölum frá árinu 2008 sem nemur 362 milljónum til viðbótar lið 05.4 Stjórnsýsla ríkisfjármála, 09-999 Ýmislegt nr. 118 í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018,“ segir í erindinu.
Athugasemdir