„Mér finnst ananas góður, bara ekki á pitsu. Ég get ekki sett lög sem banna fólki að setja ananas á pitsuna sína. Mér finnst gott að hafa ekki þau völd. Forsetar eiga ekki að hafa alræðisvald. Ég myndi ekki vilja gegna þessa embætti ef ég gæti sett lög sem bönnuðu það sem mér mislíkar. Ég myndi ekki vilja búa í þannig landi. Ég mæli með fiskmeti á pitsu.“
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáir sig um ananas á pitsum sem honum býður við. Ummæli Guðna vöktu alþjóðlega athygli og var sagt frá þeim í mörgum erlendum fjölmiðlum.
„Mér finnst alveg gersamlega óþolandi að þurfa að taka umræðu um það hver kjör þingmanna eigi að vera eða ráðherra ef því er að skipta.“
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tjáir sig um umræðu um launahækkanir þingmanna.
„Flest mál sem samþykkt eru koma úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Við þingmenn höfum svo það hlutverk að fjalla um þau en komum hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur.“
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, tjáir sig um þingstörfin í viðtali við Kópavogsblaðið þar sem hún greindi frá því að hún ætlaði að hætta þingmennsku um áramótin 2017–2018 og einbeita sér að störfum sínum í sveitarstjórn Kópavogsbæjar. Thedóra hafði verið í tveimur störfum og var það gagnrýnt harðlega að hún fengi tvöföld laun sem kjörinn fulltrúi og aldrei lagt fram þingmál en var meðflutningsmaður að einu lagafrumvarpi þann tíma sem hún sat á þingi.
„Þeir kosta okkur 3,8 milljónir að meðaltali hver hælisleitandi. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því og taka þá viðmið af einhverju öðrum í samfélaginu sem við viljum gera betur í. Hvort við þurfum þá ekki að leggja meiri áherslu á okkar eigin innviði áður en við förum að sprengja þann fjölda sem við tökum á móti á Íslandi og erum greinilega komin langt yfir þau mörk sem við ráðum við.“
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tjáir sig um umræðu um móttöku hælisleitenda í grein í Morgunblaðinu og undirstrikaði mikilvægi þess að „taka umræðuna“ um málið. Ásmundur sagði ítrekað hug sinn um málaflokkinn á árinu.
„Þú ert ekki fátækur ef þú átt bíl og getur rekið hann.“
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tjáir sig um gagnrýni á þá hugmynd Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra að taka upp vegatolla. Bent hafði verið á að vegatollar gætu komið sér illa fyrir fátækt fólk og verið íþyngjandi fyrir það.
„Það eru til alvarlegri brot heldur en þessi gagnvart börnum.“
Brynjar Níelsson tjáir sig um barnaníðingsbrot Róberts Árna Hreiðarssonar, sem síðar tók upp nafnið Róbert Downey, í uppreist æru-málinu, í viðtali við mbl.is.
„Öll hans framganga er til fyrirmyndar.“
Benedikt Sveinsson fjárfestir í meðmælabréfi með barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni þar sem hann mælti með því að hann fengi uppreist æru vegna brota sinna gegn stjúpdóttur sinni.
„Það man varla nokkur hvað þetta er.“
Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, tjáir sig um uppreist æru-málið, sem snerist um barnaníð; ástæðu stjórnarslita Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar haustið 2017. Benedikt baðst svo afsökunar á ummælum og sagði að sér þætti „leitt“ að hafa talað með þessum hætti.
„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem „prófílmynd“ á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“
Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, tjáði sig um prófílmynd varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, í miðri umræðunni um Metoo-herferðina og gaf í skyn að hún væri kynferðisleg og óviðeigandi fyrir stjórnmálakonu. Ragnar uppskar holskeflu gagnrýni fyrir vikið og dró í land. Í kjölfarið varð til myllumerkið #EkkiveraRagnar, sem notað var til að lýsa andstöðu við kvenfjandsamlega og gamaldags hugmyndafræði Ragnars sem mörgum þótti einkennast af karlrembu.
„Það yrði þægilegast að við og Samfylkingin myndum ná saman, en síðan horfum við til viðbótar til þeirra flokka sem eru næst okkur í litrófinu, af því að við viljum mynda vinstristjórn, félagshyggjustjórn, sem nær af stað með sterkar uppbyggingaráætlanir fyrir landið og velferðarkerfið og ég sé ekki að það verði auðvelt að koma því saman með Sjálfstæðisflokknum, sem er eins og kunnugt er fatlaður og getur ekki aflað tekna.“
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, kallaði Sjálfstæðisflokkinn „fatlaðan“ í aðdraganda þingkosninganna og var gagnrýndur fyrir að gera lítið úr fötluðum. Vinstri græn mynduðu svo stjórn með þessum „fatlaða“ flokki eftir kosningarnar og Steingrímur var gerður að forseta Alþingis.
„Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við. Og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer nú að tala um stöðugleika og nauðsyn þess að hafa styrka forystu, vil ég biðja ykkur að hafa í huga að síðustu þrjár ríkisstjórnir sem hann hefur átt aðild að hafa hrökklast frá völdum.“
Kolbeinn Óttarson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, kallaði eftir uppgjöri við Sjálfstæðisflokkinn fyrir þingkosningarnar en mælti svo fyrir stjórnarsamstarfi við flokkinn eftir kosningarnar.
„Ég held að það séu vandamál í öllum flokkum.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tjáir sig um og gerði lítið úr spillingu og frændhygli í Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn í viðtali við Harmageddon.
„Mér finnst til dæmis ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós.“
Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, tjáir sig um sýn sína á fjölmiðlun og gagnaleka í viðtali við Morgunblaðið eftir að lögbann hafði verið sett á Stundina út af umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og skyldmenna hans í Sjóði 9 og í Glitni.
Athugasemdir