Enn vantar 645 milljónir króna til rekstrar Landspítalans á árinu 2018 til að starfsemin geti haldist óbreytt og hægt sé að sinna nauðsynlegri þjónustu við sjúklinga, meðal annars lágmarksstyrkingu á mönnun í hjúkrun.
Þetta kemur fram í umsögn Landspítalans um fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar sem barst fjárlaganefnd Alþingis í dag.
Eins og Stundin greindi frá á dögunum er nú gert ráð fyrir 3 milljörðum hærri fjárframlögum til sjúkrahússþjónustu á næsta ári en til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrri stjórnar.
Engu að síður telja stjórnendur Landspítalans að fjárheimildirnar samkvæmt nýja frumvarpinu dugi skammt.
„Nýtt fjárlagafrumvarp gefur tilefni til nokkurrar bjartsýni hvað varðar fjárveitingar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu. Engu að síður er staðan sú að ef þetta frumvarp verður að lögum munu fjárheimildir Landspítala til rekstrar á árinu 2018 verða 1,8 milljörðum lægri á föstu verðlagi en árið 2008, þrátt fyrir verulega fjölgun og öldrun landsmanna svo og tilfærslu fjölmargra verkefna til sjúkrahússins. Slík niðurstaða kallar á hagræðingaraðgerðir sem ekki geta falist í öðru en samdrætti í mönnun og þar með þjónustu,“ segir í umsögninni.
Fram kemur að matið á fjárvöntun byggist meðal annars á því að framhald verði á biðlistaátaki, 600 milljóna pottur vegna framleiðslutengdrar fjármögnunar nýtist Landspítalanum að fullu og að sjúkrahótel verði fjármagnað sérstaklega, en rekstrarkostnaður þess á ársgrunni sé metið á 800 milljónir króna.
Auk þeirra 645 milljóna sem vantar til rekstrarins telur Landspítalinn 1700 milljónir vanta til fjárfestingar og reksturs fasteigna og 405 milljónir til tækjakaupa.
Bent er á að óvæntar en óumflýjanlegar framkvæmdir við endurbyggingu húsnæðis BUGL kalli á fjárfestingarheimild upp á nálega 950 milljónir árið 2018. Þá vanti enn 500 milljónir til fyrsta áfanga breytinga á húsnæði geðdeilda við Hringbraut til að tryggja öryggi sjúklinga, 1200 milljónir í aðrar brýnar húsnæðisframkvæmdir og 400 milljónir til tækjakaupa.
Athugasemdir