Biskupsembættið skrifaði kjararáði sérstakt bréf og fór fram á betri laun fyrir biskup Íslands. Nú hefur Kjararáð veitt biskup 18 prósenta launahækkun, sem þýðir að laun Agnesar Sigurðardóttur verða framvegis 1.553.359 krónur á mánuði.
Kjararáð ákvað að veita biskup launahækkunina afturvirkt frá 1. janúar, sem þýðir að Agnes fær 3,3 milljónir króna eingreiðslu. Mánaðarlaun hennar hækka um 271 þúsund krónur, sem jafngildir um það bil einum lágmarkslaunum einstaklings.
Síðast fékk biskup 7,15% launahækkun 1. júní 2016.
Sendi bréf með beiðni um betri kjör
Í ákvörðun kjararáðs er greint frá því að biskup Íslands hafi sent bréf með beiðni um endurskoðuð launakjör. „Kjararáði barst bréf dagsett 20. ágúst 2015 frá biskupi Íslands. Í bréfinu er þess óskað að kjararáð endurmeti launakjör biskups Íslands með hliðsjón af ábyrgð og umfangi embættisins.“
Í áframhaldandi bréfaskriftum tiltók biskupsembættið að skyldur biskups væru víðtækar. „Í bréfi biskupsstofu dagsettu 8. desember 2015 segir að það að vera forstöðumaður biskupsstofu sé einungis hluti af starfsskyldum biskups. Margvíslegar opinberar skyldur, hérlendis og erlendis, felist í því að vera leiðtogi og fyrirsvarsmaður hinnar stjórnarskrárbundnu, evangelisku lútersku þjóðkirkju. Megi þar helst til samanburðar nefna ýmsar þær opinberu skyldur sem hvíli á forseta Íslands og forsætisráðherra.“
Ein helsta röksemdin fyrir launahækkun biskups af hálfu biskupsstofu var að öðru leyti að biskup greiddi nú húsaleigu af dvalarstað sínum í embættisbústað biskups. Ekki kemur fram hversu há leigan er.
Fékk tæpa milljón í dagpeninga
Ein og hálf milljón í mánaðarlaun er hins vegar ekki einu greiðslurnar sem biskup Íslands þiggur. Agnes Sigurðardóttir dvaldi í Svíþjóð 12. september til 2. október 2015 við að „vinna að hirðisbréfi sínu ásamt fleiri skrifum“.
Vegna dvalarinnar fékk hún greiddar 923 þúsund krónur í dagpeninga skattfrjálst, „í samræmi við reglur um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins,“ eins og sagði í svari Biskupsstofu til Stundarinnar í fyrra.
Kjararáð leiðir hækkanir
Ein röksemd virðist hins vegar helst liggja til grundvallar rökstuðningi kjararáðs fyrir verulegri launahækkun biskups. Hún er að „ gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður, og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.“
Kjararáð virðist hafa haft áhrif á innbyrðis samræmi í starfskjörum þegar það ákvarðaði að veita þingmönnum 340 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum og ráðherrum um hálfrar milljón króna hækkun á mánaðarlaunum á kjördag í fyrra.
Forseti Íslands ákvað að afþakka launahækkunina með þeim hætti að hún rynni til góðgerðarmála.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra varaði við því í þættinum Víglínunni á Stöð 2 á dögunum að flugvirkjar bæðu um 20 prósenta launahækkun, þar sem það væri langt umfram efnahagslegan stöðugleika og framtíð launastrúktúrsins í landinu.
Hækkunin í samræmi við almenna launaþróun
Laun biskups Íslands hafa hækkað verulega undanfarin ár.
Biskup Íslands fékk 648.757 krónur í mánaðarlaun í júní 2007. Til viðbótar komu 34 yfirvinnustundir á 5.462 króna tímalaunum. Samtals voru laun biskups því 834.465 krónur. Þau hafa því hækkað um 86,2 prósent á tíu árum. Almennar launahækkanir eru 85,7 prósent á sama tímabili.
Laun þingmanna, þingfararkaup, hafa hins vegar hækkað mun meira síðasta áratuginn. Þingmenn hækkuðu úr 531 þúsund krónum í mánaðarlaun í 1,1 milljón króna í mánaðarlaun frá 2007 til 2017, og var stærsta stökkið ákvörðun kjararáðs á kjördag í fyrra. Þingmenn hafa þannig hækkað í launum um 127 prósent á einum áratug, langt umfram almenning og biskup. Þáverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði „gjörsamlega óþolandi“ að málið skyldi verið tekið til umræðu á Alþingi. Á endanum lækkuðu þingmenn skattfrjálsar endurgreiðslur, sem þeir fá, um 104 þúsund krónur á mánuði. Þrír af fimm meðlimum kjararáðs eru skipaðir af þingmönnum, en einn er skipaður af fjármálaráðherra. Formaður ráðsins, Jónas Þór Guðmundsson, er í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Þá liggur hins vegar ekki fyrir hversu háar dagpeningagreiðslur biskup hefur þegið í heildina.
Athugasemdir