Nú er nýtt þing hafið. Loks komin fúnksjónal ríkisstjórn. Verkalýðurinn fær atvinnutækin ekki að gjöf þessi jólin. O jæja. Í allri hreinskilni sagt átti ég tæpast von á því, svo jákvæður og bjartsýnn sem ég þó er. Vonandi fær lýðurinn þá alltént bækur, sprútt og sælgæti. Eitthvað virkilega ógagnlegt en næs. Þó enga ofgnótt. Ekki flóð.
Jólin eru hreint alveg ágæt, misskiljið mig ekki. Það er ósköp fínt að slæpast með fólki sem manni þykir vænt um. Gera vel við sig í mat og drukk og hafa gaman. Og sjálfsagt að eyða dálitlum pening í að gera það extra kósí. En okkar jól, okkar hér á skerinu, eru orðin hreinasta sturlun. Ofsafengin neysluorgía. Efnishyggja keyrð í botn. Það sjáum við öll, hvort sem við viðurkennum það eða þversköllumst við. Annað er ómögulegt skyni bornum skepnum (eða þar um bil, við erum auðvitað misskýr).
„Okkar jól, okkar hér á skerinu, eru orðin hreinasta sturlun. Ofsafengin neysluorgía. Efnishyggja keyrð í botn.“
Við gefum drasl bara af því að okkur finnst við þurfa að gera það. Bara eitthvert drasl. Meira drasl, fleira drasl, stærra drasl og hvað veit ég, jafnvel fólki sem við ekki þolum, jú, hendum alltént í þau konfekti en bara vondum molum eða kertastjaka sem syngur og dansar, sama hve hann er grátbeðinn að hætta, eða peysu úr fórnarlambsull sem aldrei lofar manni að gleyma því. Jú, þú verður andskotinn hafi það að þiggja þetta.
En gott og vel. Þetta er okkar háttur. Sjálfur tek ég þátt. Þjóðaríþróttir eru svona dellur nefndar. En mætti ég þá benda á eitt, á dálitla málamiðlun sem ég vona að einhver ykkar geti fallist á með mér. Það eru Sannar gjafir Unicef, sem fást keyptar á unicef.is. Bóluefni gegn mænusótt eða mislingum, vatnshreinsitöflur, teppi eða heilir brunnar, hnetusmjör, reiðhjól, neyðarpakkar, námsgögn, HIV-próf og þar fram eftir götunum. Misskemmtilegir hlutir sannarlega, sem þó virkilega – svo innilega – gagnast þeim sem þá hljóta. Frá fimmhundruðkalli og upp í Garðabæjarlaun per gjöf. Allt telur fyrir þann sem virkilega skortir. En annars er karton af sígó líka alltaf ösköp falleg gjöf.
En hvað veit ég? Gleðileg jól, og lifi byltingin.
Athugasemdir