Engum blöðum er um það að fletta að mótmæli við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í kjölfar hrunsins voru skammarleg. Þau hafa nú verið rifjuð svo rækilega upp í fjölmiðlum að það er þarflaust að ég geri það enn einu sinni, en ég get sérstaklega vel skilið að Steinunni hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hún frétti að hinir „knáu“ mótmælendur væru farnir að taka myndir af dóttur hennar og vinkonum hennar.
Það er vægast sagt mjög ógeðfelld og raunar mjög ógnandi hegðun við þessar aðstæður.
Í prentaðri útgáfu þessa pistils var því miður endurtekinn sá misskilningur, sem gert hafði vart við sig, að ummæli Steinunnar Valdísar um að hvatt hafi verið til nauðgana virtust eingöngu eiga við um ömurlegan „húmor“ Egils Einarssonar mörgum árum fyrr.
Svo var alls ekki. Það var vissulega maður sem hvatti til þátttöku í mótmælunum við heimili Steinunnar Valdísar 2009 sem kom þessum viðurstyggilegu hótunum á framfæri; maður stórtækur í nektar- og súlustaðabransanum. Ég biðst velvirðingar á að hafa endurtekið fyrrgreindan misskilning og ekki kynnt mér málið frá fyrstu hendi.
„Það var sem sagt farið gegn konunum, en karlar látnir í friði.“
Fyrir utan þann hrylling, sem í þessum hótunum fólst, er verst að mótmælendur gerðu mannamun á grundvelli kynferðis, sóttu að heimilum Steinunnar Valdísar (þar sem framferði þeirra var bersýnilega grófast) og Þorgerðar Katrínar, en létu til dæmis Guðlaug Þór nær alveg í friði – þótt hann hafi vissulega þegið alveg jafn háa styrki frá stórfyrirtækjum og þær. En þessir styrkir voru sem kunnugt er tilefni mótmælanna við heimili stjórnmálamannanna, þótt í tilefni Steinunnar Valdísar blandaðist fleira inn í frá borgarstjóratíð hennar.
Það var sem sagt farið gegn konunum, en karlar látnir í friði.
Ég tók þátt í öllum mótmælafundum Harðar Torfasonar á Austurvelli hrunveturinn mikla og stóð við Alþingishúsið og mótmælti á hverjum degi meðan búsáhaldabyltingin stóð yfir. Þar stóð ég með fólki sem ofbauð hvernig stjórnvöld í landinu höfðu látið reka á reiðanum í aðdraganda hrunsins, og blöskraði að ríkisstjórn Geirs Haarde skyldi síðan ætla að láta eins og ekkert væri og sitja sem fastast, rúin öllu trausti. Þetta voru friðsamleg mótmæli þótt eggjum og ýmsum gróðri væri kastað í Alþingishúsið og ég er og verð stoltur af löndum mínum fyrir þessi mótmæli.
Örfá tilfelli má finna um að þessir mótmælendur hafi gengið of langt á Austurvelli eða á öðrum opinberum stöðum. Það má líka finna örfá tilfelli um að lögreglumenn við gæslustörf hafi gengið of langt. Fegursta atvikið frá þessum mótmælum var náttúrlega þegar mótmælendur snerust til varnar lögreglumönnum þegar einhver fífl ætluðu að fara að kasta í þá grjóti. Það sýndi að mótmælendur höfðu einlæg markmið en ætluðu ekki að láta mótmæli sín þróast út í óknytti eða jafnvel ofbeldi.
Mótmæli við heimili stjórnmálamanna voru annars eðlis. Þau voru blessunarlega fámenn og það var, sýnist mér, annað fólk sem þar var í fararbroddi en hafði borið uppi búsáhaldabyltinguna. Sjálfur mætti ég auðvitað aldrei á slík mótmæli, en verð hins vegar að viðurkenna að ég andmælti því heldur ekki opinberlega að slík mótmæli væru haldin. Fyrir það skammast ég mín og ber mikla virðingu fyrir því fólki sem leitaðist við að aðstoða Steinunni Valdísi og fjölskyldu þau skipti sem setið var um heimili hennar.
Mjög gott er að þetta mál er nú komið upp á yfirborðið.
Það má aftur á móti ekki gerast – sem mér sýnist nú örla á – að afturhaldsöflin í samfélaginu, þau sem vilja tryggja að mótmæli eins og búsáhaldabyltingin brjótist aldrei út aftur, heldur fái valdsherrar ævinlega að fara sínu fram – að þessi afturhaldsöfl fái að nota hneykslun manna á því sem gerðist við heimili Steinunnar Valdísar til að kasta rýrð á mótmæli yfirleitt.
Mótmæli við heimili fólks eru ósiðleg og munu vonandi aldrei endurtaka sig. En mótmæli við opinbera staði eru bæði réttur okkar og skylda þegar okkur blöskrar, jafnvel þótt hávær séu. Réttur og skylda sem við eigum öll að nýta þegar okkur er ofboðið. Það var ekki „skríll“ sem tók þátt í búsáhaldabyltingunni eins og sumir eru nú farnir að leyfa sér að taka til orða.
Athugasemdir