Lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi mun skila fólki sem er með meira en 835 þúsund króna heildarlaun á mánuði þrisvar sinnum meiri skattalækkun en fólki á lágmarkslaunum.
Ólíkt þeim áhrifum sem til dæmis hækkun persónuafsláttar hefði mun ábatinn af tekjuskattslækkun dreifast mjög ójafnt milli tekjuhópa.
Að því er fram kemur í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ætlar ný ríkisstjórn að „leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra þrepi“.
Ekki kemur fram hve mikil lækkunin verður, en í kosningabaráttu sinni lofaði Sjálfstæðisflokkurinn að lækka neðra þrep tekjuskattskerfisins úr 36,94 prósentum í 35 prósent.
Samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu má gera ráð fyrir að 1 prósentustigs lækkun neðra þrepsins myndi kosta ríkissjóð um 14 milljarða á ári.
Tveggja prósenta lækkun gæti því kostað ríkissjóð vel á þriðja tug milljarða króna. Til samanburðar má nefna að framlag ríkissjóðs til Háskóla Íslands nam 21,1 milljarði á fjárlagaárinu 2017, framlagið til Landspítalans nam um það bil 55 milljörðum og framlagið til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nam 4,5 milljörðum.
Fari svo að neðra þrep tekjuskatts verði lækkað niður í 35 prósent mun fólk sem er með meira en 835 þúsund króna heildarlaun á mánuði fá skattalækkun sem nemur 16.199 krónum.
Skattaafslátturinn til þeirra sem eru á lægstu launum, með 280 þúsund króna laun á mánuði, nemur aðeins þriðjunginum af þessu, eða 5.432 kr.
Fólk við neðri fjórðungsmörk launa, sem er með 470 þúsund krónur á mánuði fær skattalækkun upp á 9.118 kr., en fólk við efri fjórðungsmörk launa sem er með 761 þúsund krónur á mánuði fær skattaafslátt upp á 14.763 kr.
Hækkun persónuafsláttar hefði hins vegar skilað öllum tekjuhópunum jafn mikilli skattalækkun.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á hinni ójöfnu dreifingu skattalækkunarinnar með myndrænum hætti í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni:
Athugasemdir