Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins ætlar að hækka frítekjumark atvinnutekna eldri borgara upp í 100 þúsund krónur á mánuði strax á komandi fjárlagaári samkvæmt þeim málefnasamningi sem hefur verið til umfjöllunar hjá flokksstofnunum í dag.
Fundur flokksráðs Vinstri grænna stendur enn yfir, en þar hefur komið fram hörð gagnrýni á fyrirhugað stjórnarsamstarf, meðal annars frá tveimur þingmönnum flokksins, þeim Andrési Inga Jónssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur.
Samkvæmt málefnasamningnum, sem kynntur hefur verið þingmönnum og trúnaðarmönnum flokkanna þriggja, stendur m.a. til að fella niður virðisaukaskatt á bækur, stofna miðhálendisþjóðgarð og hrinda í framkvæmd stefnu Vinstri grænna um kolefnishlutlaust Ísland. Stundin hefur áreiðanlegar heimildir fyrir þessu.
Í málefnasamningnum er því einnig lýst yfir að Ísland muni skipa sér í fremstu röð í baráttu gegn skattsvikum. Þá verður lögð áhersla á græna skatta, svo sem hækkun kolefnisgjalds.
Fram kemur að skattaumhverfi tónlistar, fjölmiðla og íslensks ritmáls verði tekið til endurskoðunar og að ráðist verði í gerð hagvísa fyrir listir, menningu og skapandi greinar. Þá vill ríkisstjórnin að Ísland skipi sér í fremstu röð í málefnum hinseginfólks og að samin verði metnaðarfull löggjöf um kynrænt sjálfræði, þ.e. rétt einstaklinga til að fá sjálfir að ákveða kyn sitt og að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, í takt við ný tilmæli Evrópuráðsins um mannréttindi intersex fólks.
Andrés Ingi Jónsson benti á það í ræðu sinni fyrr í kvöld að margt af því sem hljómar vel í málefnasamningnum hefði einnig komið fram í málefnasamningi fráfarandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, t.d. fyrirheit um vernd miðhálendisins, hertar aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukna aðstoð við flóttamenn. „Þessi ágætu atriði eru öll úr stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá því í byrjun þessa árs. Af hverju eiga þau að vera trúverðugari í dag en þau voru fyrir tæpu ári?“ sagði Andrés í ræðu sinni.
Fram kemur í málefnasamningnum að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður um tvö prósent og skattstofninn endurskoðaður. Þá verður skatthlutfall neðra þreps tekjuskattkerfisins lækkað en ekki er tilgreint hve mikið.
Athugasemdir