Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna ætlar að hækka fjármagnstekjuskatt úr 20 prósentum upp í 22 prósent samkvæmt málefnasamningnum sem lagður verður fyrir flokksstofnanir í dag.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var talsvert rætt um skattlagningu fjármagnstekna í stjónarmyndunarviðræðunum og deilt um hvort skynsamlegt væri að hækka skatinn eða bæta við sérstöku skattþrepi á háar fjármagnstekjur.
Kjarninn greindi frá því í gær að lendingin hefði verið að hækka fjármagnstekjuskatt og afla þannig ríkissjóði viðbótartekna upp á 2,5 milljarða á ári. Þetta krefst aðeins hóflegrar hækkunar skattsins, eða sem nemur tveimur prósentustigum.
Hækkunin gengur í berhögg við loforð sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf kjósendum sínum fyrir kosningar.
„Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskatt,“ segir orðrétt í umfjöllun um skattastefnu Sjálfstæðisflokksins á vef flokksins auk þess sem þetta var sérstaklega tilgreint sem eitt af áherslumálum Sjálfstæðisflokksins í umfjöllun Mbl.is um skattastefnu flokka nokkrum dögum fyrir kosningar.
Á meðal annarra atriða sem fram koma í stjórnarsáttmála er álagning komugjalda. Samkvæmt svari fráfarandi fjármálaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um komugjöld fyrr á árinu gætu komugjöld skilað 3 til 4 milljarða tekjum í ríkissjóð á ári.
Athugasemdir