Alfa hf., móðurfélag ferðaþjónustufyrirtækisins Kynnisferða, greiddi hluthöfum tæplega 2 milljarða arð á árunum 2015 og 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2016, en í skýrslu stjórnar er gerð tillaga um 200 milljóna arðgreiðslu vegna reksturs síðasta árs.
Alfa hagnaðist um tæplega 1200 milljónir á árunum 2013 og 2014 og greiddi hluthöfum samtals 80 milljónir í arð. Síðan hefur hagur fyrirtækisins vænkast enn frekar; hagnaður þess árið 2015 nam 1.479 milljónum króna og fyrirtækið hagnaðist um 164 milljónir í fyrra.
Helstu eigendur Alfa, og þar með Kynnisferða, eru foreldrar, bróðir, föðurbróðir og frændsystkini Bjarna Benediktssonar, starfandi forsætisráðherra. Af 1.978 milljóna króna arðgreiðslum til hluthafa Alfa á árunum 2015 og 2016 skiptast um 1.500 milljónir niður á þessi nánustu skyldmenni hans.
Stærstu hluthafar félagsins eru Einar Sveinsson, Benedikt Einarsson, Hrólfur Einarsson, Ásta Sigríður Einarsdóttir, Benedikt Sveinsson og Guðríður Jónsdóttir auk Jóns Gunnsteins Hjálmarssonar, viðskiptafélaga Engeyinganna.
Sjálfur er Bjarni eina barn þeirra Einars og Benedikts Sveinssona sem ekki á hlut í Alfa og Kynnisferðum. Bjarni sagði sig frá allri viðskiptaþátttöku í desember 2008 og sagðist ekki telja við hæfi að vera bæði í stjórnmálum og viðskiptum þar sem íslenska ríkið væri orðið hluthafi í stóru viðskiptabönkunum. Ólíkt eiginkonu Einars Sveinssonar á eiginkona Benedikts, móðir Bjarna, um 10 prósenta hlut í Alfa.
Á meðal smærri hluthafa Alfa á reikningsárinu 2016 eru Guðrún Sveinsdóttir, Ingimundur Sveinsson, Sveinn Benediktsson, Halldór Jóhannsson, Hjalti Geir Kristjánsson og Björn Bjarnason.
Hópurinn sem á Alfa og Kynnisferðir er að miklu leyti sá sami og átti olíufélagið N1 fyrir hrun. Eins og Stundin greindi frá í október var yfirtaka Engeyinganna á Olíufélaginu árið 2006 að miklu leyti fjármögnuð með kúlulánum frá Íslandsbanka, sem síðar hét Glitnir, en á þeim tíma var Einar Sveinsson stjórnarformaður bankans auk þess sem þeir Benedikt Sveinsson voru í hópi stærstu hluthafanna. Bjarni Benediktsson leiddi fjárfestahópinn ásamt Hermanni Guðmundssyni, sem svo varð forstjóri N1 en Bjarni varð stjórnarformaður BNT og N1 eftir viðskiptin. Engeyingarnir eignuðust svo Kynnisferðir eftir hrun þegar það var selt út úr BNT-samstæðunni sem þá hafði lent í miklum fjárhagskröggum og stóð í tugmilljarða skuld við Glitni þegar bankinn féll.
Í ágúst 2015 var greint frá því að Alfa hf. hefði selt 35 prósenta hlut í fyrirtækinu til fjárfestingarsjóðsins SÍA II sem er í rekstri Stefnis, sjóðsstýringarfyrirtækis Arion banka. Kaupverðið var ekki gefið upp en í tilkynningu um viðskiptin sagði Kristján Daníelsson, þáverandi framkvæmdastjóri Kynnisferða, að rekstur fyrirtækisins hefði breyst mikið. „Rekstur Kynnisferða hefur tekið miklum breytingum á liðnum árum og hefur félagið ráðist í umtalsverðar fjárfestingar til að mæta vexti í ferðaþjónustu á Íslandi. Við munum halda áfram að stækka og efla félagið á komandi árum og töldum því rétt að fá inn nýja hluthafa í félagið á þessum tímapunkti. Við fögnum aðkomu nýrra fjárfesta og teljum að innkoma þeirra muni styrkja félagið verulega til framtíðar.“ Eigendur Kynnisferða virðast hafa hagnast vel á sölunni þegar litið er til þess hve sterk staða félagsins er.
Athugasemdir