Á eftir Panama kom Paradís. Enn er dregið fram hvernig fjölþjóðafyrirtæki og einstaklingar, sem til þess hafa efni og geð, láta stjórnast af græðgi. Hlutur Íslands er nú annar en þeir yfirburðir sem sáust í Panamaskjölunum. Því miður er það ekki vottur um bót og betrun en ræðst af því hverjir sáu um myrkraverkin þessu sinni.
Í Panamaskjölunum náðist sá einstæði árangur á alþjóðamælikvarða að þrír ráðherrar og tveir borgarfulltrúar örríkis í norðurhöfum urðu samtímis uppvísir að því að hafa sniðgengið landslög í eiginhagsmunaskyni. Enginn gekkst þó við því að hafa gert eitthvað rangt hvað þá að beðist væri afsökunar. Að einum frátöldum hefur enginn þeirra lýst því yfir að hann hafi, áður en upp komst, staðið skattyfirvöldum skil á lögbundnum upplýsingum. Sá kokhrausti varð uppvís að því að fara með rangt mál.
Bylgja andúðar á þessu framferði reis hátt og stjórnmálamenn víða um heim hétu því að beita sér af alefli gegn hvers kyns skattasniðgöngu og fjölþjóðasamtök hvetja til samstarfs um að útrýma aflandssvæðum. Hér á landi var lítið aðhafst annað en að skattyfirvöld unnu úr þeim gögnum sem særð voru úr leynihólfum þeirra sem hulunni hafði verið svipt af. Nokkar tæknilegar breytingar voru gerðar á skattalögum en málið að öðru leyti sett í nefnd án efnda.
Ekkert siðferðilegt uppgjör fór fram. Engin úttekt var gerð eða skýrsla unnin um það hvort stjórnmálamenn hafi sniðgengið reglur og eftir atvikum brotið lög til að komast hjá því að greiða í sameiginlega sjóði þess ríkis, sem hefur þá á launaskrá. Þeir birtast því nú vængjaðir á hvítum hesti og veifa fölsuðum sakavottorðum. Ekkert pólitískt uppgjör fór fram. Eftir fjölmenn mótmæli steig Panamafólkið til hliðar og hafði hægt um sig á meðan algleymið skall á en gerir nú tilkall til fyrri metorða.
Paradísarskjölin afhjúpa fátt nýtt annað en umfangið. Þau sýna hins vegar enn betur en áður að það sem skilur á milli almennings og þeirra sem sagt hafa sig úr lögum við samfélagið og hreiðra um sig skattaskjólum er auður, græðgi og aðstaða. Þeir nærast þó áfram á því samfélagi sem ól þá og er uppspretta auðs þeirra. Það hafa þeir nú yfirgefið nema að nafninu til. Þurfum við virkilega lengur á þeim að halda? Eru þeir að annarra en eigin áliti best allra fallnir til að stýra því samfélagi sem þeir hafa í raun sagt skilið við?
Greinin birtist fyrst á vef Indriða.
Athugasemdir