Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og nýskipaður dómari við Landsrétt, segir að dómararnir sem skiluðu sératkvæðum í máli Egils Einarssonar gegn Íslandi, þau Paul Lemmens frá Belgíu og Stéphanie Mourou-Vikström frá Mónakó, hafi talsvert til síns máls. Þegar horft sé til dóma sem fallið hafa í tjáningarfrelsis- og ærumeiðingarmálum undanfarin ár og svo dómsins sem féll gegn íslenska ríkinu í gær megi vel halda því fram að skilaboð Mannréttindadómstóls Evrópu til íslenskra dómstóla séu misvísandi í þessum efnum og til þess fallin að torvelda landsdómstólum að fullnægja þeim kröfum sem leiði af dómaframkvæmdinni í Strassborg.
Þetta kemur fram í pistli Davíðs Þórs á vefsíðu hans þar sem hann fjallar um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Egils Einarssonar gegn Íslandi sem féll í gær.
„Sératkvæðin, nánar tiltekið þau bæði saman, hafa talsvert til síns máls, þ.e. að mat Hæstaréttar sé ígrundað og styðjist við viðeigandi rök sem MDE hefði vel getað unað við, og til viðbótar að með fyrri framgöngu sinni í opinberri umræðu hefði Agli mátt vera ljóst að hann kynni að kalla yfir sig hvöss viðbrögð sem hann yrði að una. Hann hafi með öðrum orðum sjálfur slegið tón umræðunnar með þátttöku sinni í opinberri umræðu í bráð og lengd.“, skrifar Davíð.
Hann bendir á að kröfu Egils Einarssonar um 10 þúsund evra miskabætur hafi verið hafnað á þeim grundvelli að viðurkenning á broti gagnvart Agli fæli í sér nægilega uppreist honum til handa. „Þetta er ekki fordæmalaust en heyrir þó fremur til undantekninga, því miskabætur eru oftast dæmdar í slíkum málum ef um brot er að ræða. Þetta er ekki sérstaklega rökstutt í dóminum, en má túlka svo að MDE fallist á sinn hátt á að Egill, sem væri þekkt persóna, hefði með eigin framgöngu að nokkru kallað þessi viðbrögð yfir sig og ekki rétt að dæma honum miskabætur við þær aðstæður,“ skrifar Davíð Þór.
Þetta er í samræmi við túlkun lögfræðinga sem þekkja til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins sem Stundin hefur rætt við undanfarna daga.
„Ef horft er til allra þeirra dóma sem fallið hafa í tjáningarfrelsis- og ærumeiðingarmálum gegn Íslandi síðustu árin má með nokkrum rétti halda því fram að skilaboðin frá MDE séu nokkuð misvísandi og til þess fallin að gera landsdómstólum fremur erfitt fyrir um að fullnægja þeim kröfum sem telja má að í dómaframkvæmd MDE felist, þrátt fyrir vilja til þess. Erfitt getur verið að átta sig á hvenær og á hvaða grundvelli MDE unir mati landsdómstóla og hvenær ekki,“ skrifar Davíð.
Hann telur að niðurstaða Hæstaréttar þann 20. nóvember 2014, um að líta bæri á tjáningu Inga Kristjáns Sigurmarssonar – ummælin „Fuck you Rapist Bastard“ – sem gildisdóm hafi verið ágætlega rökstudd, sannfærandi og innan þess svigrúms til mats sem Hæstiréttur mátti með sanngirni ætla að hann hefði þegar horft er til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins undanfarin ár.
„Með sanngirni má segja að dómur Hæstaréttar hafi falið í sér raunverulega og rökstudda tilraun til að taka mið af þeim sjónarmiðum sem MDE hefur þróað, einkum í málum sem varða tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. En allt kom það fyrir ekki að þessu sinni. Þrátt fyrir þetta bakslag verður engu að síður að hvetja íslenska dómstóla til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið síðustu misseri um að taka í vaxandi mæli mið af dómaframkvæmd MDE þar sem við á,“ skrifar Davíð.
„Hætt er þó við að þessi dómur MDE, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, virki letjandi á íslenska dómara í þeim efnum. Þeir eru vafalaust margir ósáttir við þennan dóm enda hafi Hæstiréttur í góðri trú beitt í dómi sínum þeim sjónarmiðum sem MDE hefur mótað í sinni framkvæmd um jafnvægið milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs.“ Hér má lesa grein Davíðs Þórs Björgvinssonar í heild.
Athugasemdir