Hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu er 22,8 prósent í ár og hefur ekki verið lægra frá árinu 2001. Þetta kemur fram í Þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birtist á föstudag, en samneysla ársins 2016 var endurskoðuð við útgáfu þjóðhagsreikninga í september. Ef ekki verður stefnubreyting í ríkisfjármálum mun hlutfall samneyslunnar af landsframleiðslu standa í stað næstu ár og nema að jafnaði um 22,7 prósentum á tímabilinu 2019 til 2023. Þetta er mat Hagstofunnar, byggt á þeim útgjaldaramma sem birtist í ríkisfjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar.
Í hagspá ASÍ fyrir tímabilið 2017 til 2019 er því spáð að hlutdeild samneyslunnar í vergri landsframleiðslu lækki úr 22,8 prósentum niður í 22,7 prósent á yfirstandandi ári og í 22,6 prósent árið 2018. „Þetta er mikil breyting frá árunum 2010–2015 en þá var hlutfallið 24,3% að meðaltali. Ef litið er allt aftur til 1996 er hlutfall samneyslunnar af VLF 23,3% að meðaltali,“ segir í hagspánni sem kom út í lok október. Tölurnar eru ögn hærri í spá Hagstofunnar sem telur þó að meðaltalshlutfallið næstu ára verði vel undir 23 prósentum.
Athugasemdir