Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens hefur sent frá sér aðvörun vegna falsks Instagram-reiknings í hans nafni.
Aðilinn sem stofnaði aðganginn hefur, að sögn Bubba, verið að sækja í stúlkur og konur í hans nafni. Bubbi sendi frá sér aðvörun á Facebook vegna málsins.
„SOS Þessi síða er ekki á mínum vegum einhver perri er að nota nafnið mitt og sækir í stúlkur og konur í mínu nafni hann hefur stolið myndum af síðunni minni viljið þið deila þessu ég mun finna hver þetta er tekur tíma,“ segir hann.
Aðgangurinn er með notendanafninu morthensbubbi.
„Þetta er búið að vera í töluverðan tíma ég hef ekki getað stoppað þetta en er orðinn miður mín.“
Bubbi segir í samtali við Stundina að stúlkur og konur hafi látið hann vita af tilraunum viðkomandi aðila til að komast í samband við hann. „Stúlkur og konur hafa sent mér skilaboð og sagt mér hann sé að senda þeim skilaboð. Ég er búin að fá æði mörg skilaboð frá konum um þetta, seinast áðan. Þetta er búið að vera í töluverðan tíma ég hef ekki getað stoppað þetta en er orðinn miður mín. Hann hefur stolið myndum af börnum mínum eiginkonu og sett á síðuna,“ segir hann.
Athugasemdir