Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Lofa að hækka frítekjumarkið sem þau lækkuðu sjálf

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ætl­ar að bæta kjör eldri borg­ara með því að hækka frí­tekju­mark­ið sem var lækk­að í stjórn­ar­tíð Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, og með því að bæta heima­þjón­ust­una, sem er á ábyrgð sveit­ar­fé­laga en ekki rík­is­ins. Páll Magnús­son seg­ist hins veg­ar hafa átt við heima­hjúkr­un, sem sé al­mennt á veg­um rík­is­ins.

Lofa að hækka frítekjumarkið sem þau lækkuðu sjálf
Páll Magnússon Oddviti Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi auglýsir aðgerðir sem eru á forræði sveitarfélaga, en ekki ríkisins. Mynd: Skjáskot af Facebook

Sjálfstæðisflokkurinn boðar betri  kjör eldri borgara með því að hækka frítekjumarkið, bæta heimaþjónustuna og fjölga hjúkrunarheimilum að því er fram kemur í nýju kosningamyndbandi frá flokknum. Frítekjumark atvinnutekna eldri borgara var áður 109 þúsund krónur en var lækkað niður í 25 þúsund krónur um síðustu áramót. Sú ákvörðun var tekin í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þá er sú heimaþjónusta sem öldruðum stendur til boða ekki á vegum ríkisins, heldur veita sveitarfélög þá þjónustu. 

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, fer fyrir umræddri auglýsingu. Hann segir ekki sanngjarnt að stilla þessu upp með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað frítekjumarkið, enda hafi kerfið allt tekið stórum breytingum á þessum tíma. Þá segist hann ekki hafa átt við heimaþjónustu, líkt og hann segir í myndbandinu, heldur heimahjúkrun. 

Orðrétt segir Páll í myndbandinu: „Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um eldra fólk. Við eigum ekki að setja fólk á hliðarlínuna vegna aldurs. Fólk þarf að geta unnið ef það vill vinna, en eiga vísan stuðning þegar starfsorkan minnkar. Þetta ætlum við að gera með því að hækka frítekjumarkið, bæta síðan heimaþjónustuna og fjölga hjúkrunarheimilum. Af því að samfélagið er betra þegar allir taka þátt.“

 

Hafa áður lofað að afnema tekjutengingar

Eins og Stundin greindi frá í síðasta blaði sendi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kjósendum bréf í aðdraganda kosninga árið 2013. Þar gaf hann öldruðum loforð um eitt og annað, kæmist hann í ríkisstjórn, og sagði „eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði“ og fólk eigi að njóta afraksturs erfiðis síns á efri árum. Meðal þess sem Bjarni lofaði var að lækka fjármagnstekjuskatt, sem kæmi einna harðast niður á eldri borgurum landsins, og þá lofaði hann að afnema tekjutengingar ellilífeyris og sagði að þar væri „sannarlega um réttlætismál að ræða“. 

Eftir kosningarnar fór Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórnarsamstarf með Framsóknarflokknum og í tíð þeirrar ríkisstjórnar var meðal annars ákveðið að lækka frítekjumarkið niður í 25 þúsund krónur, en það hafði sem fyrr segir áður verið 109 þúsund krónur. Þessi breyting tók gildi um síðustu áramót og sagði Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, í viðtali við Stundina að breytingin hefði haft mikil áhrif á afkomu ellilífeyrisþega.

Páll segir ekki sanngjarnt að stilla málum upp með þessum hætti, því á þessum tíma hafi kerfið allt tekið miklum breytingum, sem fólu meðal annars í sér lækkun á frítekjumarkinu. „Þannig það er býsna langsótt að tala um að frítekjumarkið hafi verið lækkað blákalt og bera það svo saman við hækkunina núna, vegna þess að allt kerfið breyttist,“ segir hann. „Kjör þeirra sem frítekjumarkið var lækkað hjá hækkuðu mikið meira með öðru fyrirkomulagi á þeim tíma sem þetta var gert. En auðvitað liggja mismunandi pólitísk sjónarmið þarna að baki.“

Rétt er að lækkun frítekjumarksins var hluti af stærri heildarbreytingu á almannatrygginga- og lífeyriskerfinu í tíð Eyglóar Harðadóttur þáverandi húsnæðis- og félagsmálaráðherra. Hækkun frítekjumarksins olli hins vegar áhyggjum meðal ellilífeyrisþega á vinnumarkaði og sagði Haukur Ingibergsson, þáverandi formaður Landssambands eldri borgara, þær ekki atvinnuhvetjandi.

Allir stjórnmálaflokkar lofa nú annað hvort hækkun frítekjumarks eða afnámi skerðinga vegna atvinnutekna eldri borgara. Eins og fram kom í úttekt Stundarinnar á kosningaloforðum telur hagdeild ASÍ að slíkar aðgerðir gagnist aðeins þeim ellefu prósent ellilífeyrisþega sem hafa atvinnutekjur, en mismuni þeim ellilífeyrisþegum sem ekki eru á vinnumarkaði því lífeyrissjóðstekjur þeirra muni eftir sem áður skerða ellilífeyri. 

Átti við heimahjúkrun

Í öðru lagi lofar Sjálfstæðisflokkurinn að bæta heimaþjónustu eldri borgara, en það eru sveitarfélög sem veita þá þjónustu en ekki ríkið. Þjónustan er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, en sveitarfélögin setja sjálf nánari reglur um framkvæmdina. Það er því ekki á valdi ríkisstjórnarinnar að bæta heimaþjónustu aldraðra, eins og Sjálfstæðisflokkurinn lofar komist hann til valda. 

Páll segist hins vegar hafa átt við heimahjúkrun, sem er aftur á móti almennt á hendi heilbrigðisstofnana í hverju heilsugæsluumdæmi, nema í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins þar sem heimahjúkrun er veitt af Heimaþjónustu Reykjavíkur sem heyrir undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þar hefur félagsleg heimaþjónusta verið sameinuð heimahjúkrun. Þá er heimahjúkrun einnig á vegum sveitarfélagsins í tilviki Akureyrar.

Páll segir að almennt sé talað um að heimaþjónusta skiptist í tvennt; annars vegar félagslegu heimaþjónustuna sem sé veitt af sveitarfélögunum og síðan hjúkrunarþjónustuna sem sé veitt af heilbrigðisstofnunum, nema í Reykjavík og á Akureyri. Hann hafi verið að tala um hjúkrunarþjónustuna, þótt hann hafi notað orðið „heimaþjónusta“ í auglýsingu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Alþingiskosningar 2017

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
4
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár